Úrvalsvísitalan hefur hækkað lítillega í 1,6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar það sem af degi.

Mesta breytingin hefur orðið á hlutabréfaverði Play sem hefur fallið um 4% í níu viðskiptum sem nema samtals um einni milljón króna.

Gengi Play stendur nú í 0,72 krónum á hlut og er nú um 21,7% lægra en við lokun Kauphallarinnar á þriðjudaginn, rétt áður en flugfélagið tilkynnti um að fjárfestahópur sem hafði í síðasta mánuði boðað yfirtökutilboð á tilboðsverðinu 1,0 krónu á hlut, hefði fallið frá áformunum.

Samhliða tilkynnti félagið um það hefði tryggt sér áskriftarloforð upp á 2,4 milljarða króna vegna áformaðrar útgáfu breytanlegra skuldabréfa.

Auk Plau hafa hlutabréf S‏ýnar, JBT Marels og útgerðarfélaganna Brims og Ísfélagsins fallið um meira en eitt prósent í dag, en þess má þó geta að velta með hlutabréf umræddra bréfa telst þó vera lítil.

Fasteignafélagið Kaldalón hefur hækkað mest af félögum Kauphallarinnar eða um 2,5% í 180 milljóna veltu og stendur nú í 24,8 krónum á hlut.

Þá hefur gengi Skaga, sem sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun í gær, Festi, Amaroq og Ölgerðarinnar hækkað um meira en eitt prósent.