Hlutabréfaverð flugfélagsins Play hefur lækkað um 4% í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í dag og stendur nú í 14,6 krónum á hlut. Endi gengi Play undir 15 krónum í dag, þá verður það lægsta dagslokagengi félagsins frá skráningu á First North-markaðinn í júlí 2021.

Flugfélagið tilkynnti í gærkvöldi um að náðst hefði samkomulag við tuttugu stærstu hluthafa félagsins um bindandi áskriftarloforð að nýju hlutafé að andvirði 2,3 milljarða króna. Útgáfugengið er 14,6 krónur á hlut.

Play birti einnig uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Flugfélagið tapaði 2,9 milljónum dala á fjórðungnum eða sem nemur 430 milljónum króna. Play skilaði rekstrarhagnaði í fyrsta sinn en sagði þó ljóst að áætlanir um rekstrarhagnað á seinni hluta ársins muni ekki standast.

Eimskip hækkar um meira en 3%

Eimskip skilaði einnig uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Hlutabréfaverð Eimskips hefur hækkað um meira en 3% í fyrstu viðskiptum og stendur nú í 545 krónum.

Flutningafélagið hagnaðist um rúma 4 milljarða króna á fjórðungnum, sem er meira en þriðjungshækkun frá sama tímabili í fyrra. Tekjur félagsins jukust um 23,5% á milli ára.

Í uppgjörstilkynningu Eimskips segir forstjórinn Vilhelm Már Þorsteinsson að alþjóðleg flutningsverð hafi lækkað verulega á öllum leiðum. Þessi þróun muni hafa áhrif á framlegð í alþjóðlegri flutningsmiðlun en bætti þó við að aukið aðgengi að plássi og búnaði hjá stærri skipafélögum ætti að styðja við magnaukningu sem vegi upp á móti verðlækkunum.

„Flutningsmiðlun Eimskips er sérhæfð í flutningum á kældri og frystri vöru sem kemur sér vel við núverandi aðstæður þar sem eftirspurn eftir matvöru er almennt minna næm fyrir efnahagsþrengingum en eftirspurn eftir annars konar vörum,“ sagði Vilhelm.