Hlutabréf flugfélagsins Play verða tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar við opnun markaða. Félagið hefur verið skráð á First North markaðinn í rúmlega þrjú ár. Í kjölfar skráningar flugfélagsins á Aðalmarkað eru 28 félög skráð á markaðinn.

Play er lággjaldaflugfélag, stofnað árið 2019 með höfuðstöðvar á Íslandi. Félagið býður upp á flug milli Evrópu og Norður-Ameríku með Keflavíkurflugvöll sem tengivöll fyrir farþega og vöruflutninga.

„Skráning Play á Aðalmarkað markar mikilvæg tímamót fyrir félagið,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play í fréttatilkynningu. „Liður í skráningunni var hlutafjáraukning snemma í vor sem gekk mjög vel og við bjóðum nýja hluthafa innilega velkomna í hópinn. Við einblínum á að halda kostnaðargrunni lágum og samkeppnishæfum sem er og verður lykilatriði fram veginn, ásamt því að styrkja undirstöður í rekstri.”

„Við bjóðum Play velkomið á Aðalmarkað Nasdaq Iceland,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Skráning á Aðalmarkað veitir félaginu enn meiri sýnileika og trúverðugleika sem og aðgang að breiðari hópi fjárfesta en áður. Við óskum félaginu og hluthöfum innilega til hamingju og hlökkum til að styðja við félagið á áframhaldandi vegferð þess.“