Árið 2018 daðraði Donald Trump við það að reka Jerome Powell seðlabankastjóra Bandaríkjanna er hann var afar ósáttur með vaxtahækkanir bankans.
Samkvæmt The Wall Street Journal voru yfirmenn innan seðlabankans og Powell tilbúnir að láta reyna á slíka ákvörðun fyrir dómstólum til að verja sjálfstæði seðlabankans.
Powell greindi Steven Mnuchin, þáverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, að ef Trump myndi reyna velta honum úr stóli myndi hann berjast gegn því.
Samkvæmt heimildarmönnum WSJ lítur Powell svo á að það sé mikilvægt fyrir framtíð seðlabankans að fara með málið fyrir dómstóla reyni Trump að koma honum úr embætti.
Hann mun þó líklegast þurfa að greiða allan lögmannskostnað úr eigin vasa en ljóst er að málið yrði fordæmisgefandi.
Blaðamenn spurðu Powell á dögunum hvort hann myndi víkja ef Trump óskaði eftir því og Powell sagði einfaldlega „nei“ og bætti síðar við að það væri ólöglegt af forsetanum að krefjast þess.
Trump sagði í júní að hann myndi leyfa Powell að klára skipunartíma sinn en bætti síðan við: „Ef mér finnst hann vera að gera rétta hluti.“