Æðstu stjórnendur nokkurra stærstu ráðgjafarfyrirtækja Bandaríkjanna eru þessa dagana að funda með embættismönnum á vegum Trump-stjórnarinnar til að verja verkefni sem þau inna ef hendi fyrir ríkið.

Umræddir fundir tengjast kröfu stjórnarinnar um að ríkisstofnanir réttlæti helstu ráðgjafarsamninga sína. Á undanförnum dögum hafa æðstu stjórnendur stórfyrirtækja, þar á meðal Ernst & Young og Guidehouse, fundað með embættismönnum, samkvæmt heimildum Wall Street Journal. Framkvæmdastjóri frá Booz Allen hefur samkvæmt sömu heimildum einnig verið í samskiptum við embættismennina.

Þessir fundir eru tilkomnir vegna skoðunar stjórnvalda á ráðgjafarsamningum ríkisins í tengslum við áform um að minnka ríkisútgjöld. Þannig hefur verið óskað eftir því að innkaupastjórar hjá hinum ýmsu ríkisstofnunum réttlæti ráðgjafarsamninga sína við tíu fyrirtæki, þar á meðal Booz Allen, Accenture og Guidenhouse.

Frestur til þess að skila inn svörum rennur út nk. föstudag.

Áætlanir gera ráð fyrir að þau tíu ráðgjafarfyrirtæki sem eiga í umsvifamestu viðskiptum við bandaríska ríkið muni alls fá yfir 65 milljarða dala í sinn hlut.