„Margt hefur áunnist undanfarin ár í rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja og eru nú sjö af tíu verksmiðjum á landinu að fullu rafvæddar, aðrar að hluta til,“ segir Hildur Hauksdóttir, sérfræðingur í umhverfismálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).
Hún segir ekki allar verksmiðjur hafa getað nýtt sér rafmagn.
„Þar má nefna á Akranesi þar sem lítil framleiðsla er á fiskmjöli, á Þórshöfn vegna dreifikerfis raforku til svæðisins og í Vestmannaeyjum vegna takmarkaðs flutnings á raforku sem hamlar frekari rafvæðingu verksmiðja.“
Fjárfesta þurfi í flutningskerfinu
Fiskimjölsverksmiðjur sem kaupa rafmagn hafa í fjölda ára nýtt sér ótrygga orku. Þannig geta verksmiðjurnar gripið til olíu við framleiðsluna þegar raforka hefur ekki fengist. Hildur segir það fyrirkomulag skynsamlegt þar sem verksmiðjurnar hafi ekki sama fyrirsjáanleika og annar iðnaður þegar kemur að orkunotkun. Hráefnisöflun verksmiðjanna sé breytileg og spilar þar inn í fjöldi þátta svo sem staða aflaheimilda, veðurfar, göngumynstur fiska sem og fjölmargar aðrar breytir sem hafa áhrif á orkuþörf verksmiðjanna.
„Þetta fyrirkomulag hefur gengið vel því verksmiðjurnar hafa getað nýtt orku sem annars hefði mögulega farið til spillis. Þetta eykur nýtingu orkunnar sem þegar er framleidd.“
Hún segir að miklar raforkuskerðingar hafi verið að undanförnu, sem hafi leitt til þess að fiskimjölsverksmiðjur brenndu 24 milljónum lítra af olíu í fyrra. Notkun verksmiðjanna á olíu fjórfaldaðist á hvert tonn af hráefni frá árinu 2020.
„Þetta vinnur gegn þeim loftslagsmarkmiðum sem stjórnvöld og sjávarútvegur hafa sett sér um 50% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá árunum 2005-2030 og grefur undan þeim fjárfestingum sem þurfa að eiga sér stað á næstu árum í orkuskiptum á Íslandi. Þær skerðingar sem sáust árið 2022 voru langvarandi og full skerðing átti sér stað, að mestu vegna slæmrar vatnsstöðu. Skerðingar sem eiga sér stað árið 2023 virðast ekki vera vegna sömu ástæðu heldur virðist vera búið að lesta kerfið margfalt á við það sem var og á sama tíma er orkuþörf í samfélaginu að aukast.“
Hún segir að til að ná fullri rafvæðingu hjá verksmiðjunum þurfi að koma til veruleg fjárfesting í flutningskerfi raforku. Stjórnvöld þurfi að tryggja verksmiðjunum örugga raforku til að allar verksmiðjur gangi fyrir rafmagni árið 2030 og afhendingaröryggi sé tryggt.
„Raforka er alltaf fyrsti kostur. Ávinningurinn er ótvíræður þegar kemur að loftslagsmálum en raforkan skapar einnig betra vinnuumhverfi í verksmiðjunum og nærumhverfi þeirra með tilliti til hávaða og loftgæða sem og auðveldara er að stýra búnaði og gangsetja með skemmri fyrirvara.“
Eftispurn eftir aflmeiri landtengingum
Íslensk fiskiskip, sem liggja við bryggju, geta tengst rafmagni frá landi. Þetta kerfi hefur verið við lýði síðan árið 1980 og lítið breyst á undanförnum áratugum. Hafnirnar hafa í flestum tilfellum sjálfar séð um sölu, uppbyggingu innviða, dreifingu og tengingar á hafnarsvæði.
Hildur segir helstu annmarka á landtengingu vera þá að í mörgum tilvikum ráði hún ekki við orkuþörf stærri skipa, til dæmis þegar verið er að landa. Þurfi skip meiri orku en landtenging ræður við þarf að keyra ljósavél sem framleiðir rafmagn úr jarðefnaeldsneyti.
„Augljóst er að spurn er eftir aflmeiri tengingum landrafmagns fyrir íslenska flotann og hún hefur aukist. Án öflugri innviða er ólíklegt að skipum sem geta tengst landrafmagni fjölgi mikið á næstu árum. Til að ná auknum árangri í orkunýtingu fiskiskipa verður að auka afl raforku sem fer til landtenginga í höfnum.“
Fiskiskip hafa stækkað á undanförnum árum og því þarf meiri orku en áður til að þjónusta þau við bryggju. Þetta hefur leitt til þess að færri skip en áður geta tengst rafmagni úr landi. Hildur segir að greina mætti raforkuþörfina miðað við löndun skipa í hverri höfn. Komi til þess að nýta þurfi búnað sem þarf meira afl en landtenging leyfir verði að keyra ljósavél sérstaklega.
„Orkuþörf skipa getur verið mismikil eftir stærð og tegund. Gróft mat er að stærri ísfisktogarar þurfi um 350kW og frystitogarar um 500kW. Uppsjávarskip þurfa frá 500-700kW eftir stærð til að kæla aflann, dæla honum á land og sinna annarri raforkunotkun um borð. Þá þarf að vera fyrir hendi breytistykki fyrir mismunandi skip til að hægt sé að nýta tengingarnar í öllum tilvikum. Fyrir minni skip duga núverandi tengingar í flestum tilfellum.
Hún bætir við að til að stærri skip geti nýtt raforku í íslenskum höfnum sé ljóst að kosta þurfi nokkru til. „Hugsanlega þarf að styrkja raforkukerfið í heild ef nýta á mikla orku í hafnarstarfsemi eða til landtenginga skipa. Ávinningurinn af slíkri fjárfestingu er þó ótvíræður.“
Umfjöllunin birtist í sérblaðinu SFS: Auður hafsins - lífskjör framtíðar, sem kom út fimmtudaginn 23. mars 2023. Áskrifendur geta lesið hana í heild hér.