Raforkukaup Reykjavíkurborgar munu færast til N1 Rafmagns um næstu áramót en hingað til hefur Reykjavíkurborg keypt rafmagn af Orku náttúrunnar (ON), dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur sem er í eigu borgarinnar. Samningurinn hljóðar upp á 257,5 milljónir króna á ári og gildir frá 1. janár 2023 til 31. desember 2025.
Samningurinn nær til allrar almennrar raforkunotkunar borgarinnar auk götulýsingar. Um er að ræða innkaup á um 46 gígavattstundum, sem er langstærsta útboð á raforku á almennum markaði þar til nú, að því er segir í frétt á vef borgarinnar.
Kærunefnd útboðsmála úrskurðaði að Reykjavíkurborg skyldi bjóða út kaup á raforku og var það gert á Evrópska efnahagssvæðinu 24. maí síðastliðinn og í framhaldi af því einnig innanlands. Tilboð voru opnuð 30. júní og bárust fjögur tilboð frá N1 Rafmagn, Orkusölunni, Orku náttúrunnar og Straumlind.
N1 Rafmagn, dótturfélag N1 sem hét áður Íslensk Orkumiðlun, átti lægsta tilboðið og hljóðaði það upp á 5,65 krónur á hverja kílóvattstund fyrir almenna notkun en 5,35 krónur fyrir götulýsingu. Samningurinn hljóðar því upp á 257,5 milljónir króna.
Yfir kostnaðaráætlun en undir núverandi orkuverði
Í frétt Reykjavíkurborgar segir að tilboð N1 Rafmagns hafi verið nokkuð yfir kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á 4,90 krónur fyrir almenna notkun og 4,65 krónur fyrir götulýsingu.
Samkvæmt útboðslýsingu taldist tilboðið því óaðgengilegt en Reykjavíkurborg áskildi sér þó rétt til að taka tilboði yfir kostnaðaráætlun. Jafnframt segir að tilboð hafi verið tæpum 20% undir núverandi orkuverði.