Viðskipti á heildsölumarkaði rafmagns fara í dag fram á raforkumarkaði sem Vonarskarð rekur og eru viðskiptin, verð og magn, gerð opinber. Þrír mismunandi vöruflokkar eru á markaðnum. Grunnorka, sem er afhent í heilt ár í senn og boðin fimm ár fram í tímann, er ódýrasta tegund orku.
Markaðsverð grunnorku hefur hækkað jafnt og þétt í hverju uppboði Vonarskarðs. Fyrir grunnorku árið 2025 fór markaðsverð úr 7.442 krónum á MWst í öðru uppboðinu í 7.643 krónur á MWst í því fjórða. Hækkunin var enn meiri fyrir árið 2026, fór úr 7.761 krónu á MWst í 8.435 krónur á MWst.
Sé horft til viðskipta með grunnorku, sem afhent er í heilt ár í senn, sést að meðalverð árið 2023 var 6.700 krónur á MWst og hafði hækkað um 17% frá árinu 2020 á verðlagi ársins 2023, þegar það nam 4.500 krónum á MWst.
Miðað við síðasta uppboð Vonarskarðs sést því að verð á grunnorku fyrir árið 2026 hafi nærri tvöfaldast miðað við árið 2020. Ekki er ólíklegt að verð á grunnorku muni hækka enn meira eftir því sem nær dregur.
Viðskiptablaðið hefur þá fjallað um verðhækkanir á jöfnunarorkumarkaði. Jöfnunarorkuverð hefur hækkað gríðarlega frá og með árinu 2022 en hafði verið nokkuð stöðugt áður. Meðalverð jöfnunarorku árið 2021 nam þannig 5.321 krónu á MWst en það sem af er ári 2024 hefur verðið að meðaltali verið 9.911 krónur á MWst, sem er aukning um rúm 86%.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.