Guðmundur Tyrfingsson ehf. (GTS) á Selfossi hefur undirritað samning við YES-EU ehf. um kaup á 10 nýjum rafmagnsrútum en um er að ræða þrjár mismunandi tegundir af Yutong-rútum sem notaðar verða bæði í föst verkefni og í stökum hópferðum.

Í tilkynningu segir að samningurinn sé sá stærsti sem YES-EU og GTS ehf. hafa gert til þessa og er sagt stórt skref í orkuskiptum á Íslandi.

GTS ehf. hefur frá árinu 2008 keypt Yutong-rútur af YES-EU en í upphafi voru aðeins keyptar díselrútur. Árið 2014 keypti félagið svo fyrsta rafmagnsvagninn til Íslands og var hann jafnframt fyrsti rafmagnsvagninn sem kom til landsins, og einnig sá fyrsti sinnar tegundar sem kom til Evrópu.

Sá bíll er, að sögn fyrirtækisins, enn í fullum akstri og hefur reynst afskaplega vel, líkt og allar þær rútur sem félagið hefur fengið frá Yutong.

Yutong er stærsti rútu- og strætisvagnaframleiðandi í heimi og framleiddi 47.000 hópferðabíla í fyrra þar sem þriðjungur þeirra var rafknúinn. YES-EU hefur unnið með Yutong á Norðurlöndum síðan 2008 og hefur félagið selt þangað yfir 2000 rafmagnsvagna og -rútur.