Starfslokauppgjör Ragnars Þórs Ingólfssonar hjá VR nam um 10 milljónum króna, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Hann fékk greidd biðlaun og ótekið orlof eftir að hann sagði af sér sem formaður VR í byrjun desember.
Ragnar Þór starfaði sem formaður VR á árunum 2017 og allt þar til hann hlaut kjör á þing fyrir hönd Flokks fólksins í þingkosningunum í lok nóvember.
Ragnar Þór átti rétt á biðlaunum til sex mánaða samkvæmt ráðningarsamningi, að því er kemur fram í svari Stefáns Sveinbjörnssonar, framkvæmdastjóra VR, við fyrirspurn Moggans.
Ragnar Þór, sem var með 1,3 milljónir króna í laun á mánuði, óskaði eftir því að fá biðlaunin greidd með eingreiðslu og hefur uppgjörið þegar farið fram. Eingreiðsla biðlauna hljóðaði því upp á 7,8 milljónir króna og samkvæmt heimildum blaðsins bættist orlofsuppgjör þar ofan á.