Coloplast rak forstjóra sinn Kristian Villumsen, sem var við stjórnvölinn er gengið var frá 180 milljarða króna kaupunum á Kerecis, til að endurheimta traust fjárfesta.

Í viðtali við Bloomberg segir Lars Rasmussen, stjórnarformaður Coloplast, að lækningavörufyrirtækinu hafi mistekist að skila nægilegri arðsemi til hluthafa sinna. Stjórnarformaðurinn mun gegna forstjórastöðunni tímabundið meðan leit stendur yfir af arftaka.

Félagið birti í gær hálfsársuppgjör og lækkaði gengi bréfa þess um 7,4% í fyrstu viðskiptum, sem er mesta gengislækkun hlutabréfa félagsins í heilt ár.

Í frétt Bloomberg er bent á að Villumsen hafi skilað hluthöfum um 3% árlegri ávöxtun að meðaltali, samanborið við 7% hjá sambærilegum fyrirtækjum. Frammistaðan hafi farið versnandi frá byrjun síðasta árs.

Í síðustu viku lækkaði Coloplast afkomuspá sína fyrir yfirstandandi rekstrarár þar sem hægari vöxtur í sölu á þvagfæratækjum, að hluta til vegna innköllunar vöru, hafði áhrif.