Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur svarað erindi eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, sem snéri að mögulegum brotum á EES-samningnum vegna flokkunar vindorkuvers Landsvirkjunar í nýtingarflokk rammaáætlunar.
Forsaga málsins er sú að við afgreiðslu þriðja áfanga rammaáætlunar vorið 2022 var vindorkukosturinn Búrfellslundur, sem heitir í dag Vaðölduver, fluttur úr biðflokk rammaáætlunar yfir í nýtingarflokk. Breyting var gerð á flokkuninni í meðförum umhverfis- og samgöngunefndar en í nefndaráliti meirihluta nefndarinnar og 1. minnihluta var áhersla lögð á að virkjunarkosturinn væri á hendi opinbers fyrirtækis.
Í svarinu segir að ferli rammaáætlunar sjái til þess að öll verkefni séu metin út frá sömu forsendum frekar en að horft sé sérstaklega til eignarhalds eða annarra þátta. Horft hafi verið til þess að vindorkukosturinn væri í nágrenni vatnsaflsvirkjunar, sem myndi skapa samlegðaráhrif og bæta nýtingu, og það hafi aðeins verið hending að hann væri á hendi opinbers aðila.
Ráðuneytið lagði áherslu á að ferli rammaáætlunar snúi ekki að leyfisveitingum heldur sé um að ræða stjórntæki sem forgangsraði orkunýtingarsvæðum á sama tíma og tillit er tekið til verndargildis náttúru. Þá sé henni ætlað að draga úr stjórnsýslulegum hindrunum með því að hafa verklagið gagnsætt og skilyrði skýr þar sem allir fá sömu meðferð.
Ráðherra og Alþingi geta aftur á móti breytt flokkun tiltekinna kosta. Ef ákvörðunin kemur frá ráðherra er nauðsynlegt að breytingin fari í samráðsferli en það á ekki við um Alþingi, sem þarf þó að vísu að rökstyðja ákvörðun sína.
Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, segir að deila megi um það hversu ítarlegur sá rökstuðningur sem hefur fylgt afgreiðslum hefur verið hingað til, eða þurfi að vera. Þingið hafi fullt forræði til að afgreiða mál í samræmi við sannfæringu hvers og eins þingmanns.
„Jafnvel þó mat verkefnisstjórnar og faghópa væri að öllu leyti faglegt og hafið yfir vafa, þá er endanleg ákvörðun alltaf á hendi Alþingis og þar eru þingmenn einungis bundnir af sannfæringu sinni sbr. 48. gr. stjórnarskrárinnar. Mér er ekki kunnugt um neitt land þar sem pólitískt kjörnir fulltrúar eru að véla um afdrif verkefna einstakra fyrirtækja á samkeppnismarkaði,“ segir Finnur.
Hvað eignarhaldið varðar sé erfitt að fullyrða að dæmi séu um að virkjunarkostur á hendi opinbers fyrirtækis fái aðra meðferð en virkjunarkostur á hendi einkafyrirtækis. Þingmenn séu einungis bundnir eigin sannfæringu en í umræðum á þinginu og í nefndarálitum hafi eignarhald vissulega verið gert að umræðuefni.
„Samkvæmt samtölum okkar við aðila sem eru nú að reyna að koma á fót sínum fyrstu virkjunarkostum, bæði í vindorku og jarðhita, hafa þeir fengið spurningar frá faghópum um eignarhald sinna fyrirtækja og í hvað orka eigi að fara. Hvorugt getur að okkar mati talist lögmæt sjónarmið við flokkum í vernd eða nýtingu landsvæða.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.