Eigendur Rammagerðarinnar hafa keypt allt hlutafé Glófa ehf. sem er stærsti framleiðandi á íslenskri ullarvöru hér á landi. Greint er frá kaupunum í fréttatilkynningu þar sem segir að Glófi framleiði undir eigin vörumerki ásamt því að sinna framleiðslu á ullarvörum fyrir önnur íslensk vörumerki.

Fyrirtækið var stofnað á Akureyri árið 1982 og var áður í eigu Páls Kr. Pálssonar og Helgu Lísu Þórðardóttur. Páll mun gegna stöðu framkvæmdastjóra félagsins áfram. 

„Glófi framleiðir allar sínar vörur á Íslandi undir vörumerkinu VARMA, um er að ræða ríflega 80 vörutegundir sem eru framleiddar í 400 mismunandi útfærslum og fáanlegar hjá 120 söluaðilum um land allt. Framleiðslan fer fram í Ármúla í Reykjavík og starfa 20 manns hjá fyrirtækinu. Helstu viðskiptavinir eru Íslendingar og erlendir ferðamenn en útflutningur til Þýskalands, Norðurlanda og Norður Ameríku fer vaxandi,“ segir í fréttatilkynningu.

„Við höfum mikla trú á því sem Glófi og vörumerkið Varma eru að vinna að, skapa verðmæti úr íslenskri ull. Glófi er mjög vel rekið fyrirtæki með spennandi framtíðarmöguleika. Fyrirtækið passar vel við áherslur Rammagerðarinnar sem hefur stutt við vöxt og nýsköpun á sviði hönnunar og handverks hér á landi, “ er haft eftir Bjarneyju Harðardóttur eiganda Rammagerðarinnar. 

„Það er spennandi að vinna með nýjum eigendum að vöruþróun á íslensku ullinni. Við höfum verið að framleiða fjölbreyttar ullar smávörur og prjónafatnað ásamt teppum og mokkavörum á ábyrgan og umhverfisvænan hátt. Það er dýrmætt fyrir fyrirtæki að fá inn nýja þekkingu og reynslu til að styðja við áframhaldandi uppbyggingu. Við höfum verið að horfa til frekari vöruþróunar og útflutnings á íslenskum ullarvörum. Með aukinni umhverfisvitund þá eru neytendur um allan heim að átta sig á verðmæti íslensku ullarinnar og mikilvægi umhverfisvænnar framleiðslu. Íslenska ullin hefur reynst okkur Íslendingum vel en við höfum einnig verið að þróa vinnslu á lambsull sem er samkeppnishæf við mýkri tegund af ull en þar liggja mikil tækifæri,“ segir Páll Kr. Pálsson, framkvæmdastjóri Glófa ehf., í fréttatilkynningu.