Rammagerðin hefur leigt húsnæðið á Laugavegi 31, einnig þekkt sem Kirkjuhúsið, undir nýja flaggskipsverslun fyrirtækisins. Verslunin er um 600 fermetrar að stærð og verður vettvangur fyrir hönnunarheiminn sem Rammagerðin veitir aðgang að.

Fyrirtækjasalan Suðurver sá um miðlun og samninga á milli aðila

Verslunin kemur til með að bætast við aðrar verslanir Rammagerðarinnar í Reykjavík en þær eru einnig á Skólavörðustíg og í Hörpu. Auk þess rekur Rammagerðin tvær verslanir á Keflavíkurflugvelli og eina á Hvolsvelli. Rammagerðin hefur starfrækt frá árinu 1940.

Húsnæðið að Laugavegi 31 var teiknað af Einari Erlendssyni húsasmið og reist af kaupmanninum Marteini Einarssyni sem seldi þar vefnaðar- og matvöru. Kristnisjóður keypti húsið árið 1994. Núverandi eigendur eignuðust húsið haustið 2020 og hafa gagngerar endurbætur staðið yfir síðan, þar sem húsið hefur verið fært til upprunalegs útlits með nútímaþarfir í huga.

Í tilkynningu segir að nýja verslunin muni auka enn frekar möguleika Rammagerðarinnar til áframhaldandi samstarfs við hönnuði. Auk þess verður ný verslun heimili þekktra íslenskra vörumerkja í bland við minni framleiðendur.

Rammagerðin segist stolt af því að vera eina fyrirtækið á Íslandi sem vinnur alfarið með íslenskum hönnuðum og framleiðendum og hefur sinnt því hlutverki næstum samfellt frá stofnun fyrirtækisins fyrir 83 árum.

Hönnunin á nýrri flaggskipsverslun Rammagerðarinnar, að Laugavegi 31, verður í höndum Basalt arkitekta sem hönnuðu jafnframt nýja og glæsilega verslun Rammagerðarinnar í Hörpu. Áætlað er að verslunin opni í haust.