Breiðfylking verkalýðshreyfingarinnar, sem hefur undanfarnar vikur átt í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins, lýsti því yfir í gær að viðræðurnar hefðu reynst árangurslausar.

Var því haldið fram í tilkynningu að SA hafi hafnað með öllu að í fjögurra ára samningi yrðu forsenduákvæði, sem gefur leyfi til uppsagnar samningsins, náist markmið varðandi verðbólgu og vexti ekki.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er það ekki með öllu rétt en SA hafi reynt að koma til móts við verkalýðshreyfinguna með því að leggja til að unnt væri að segja samningnum lausum á seinni hluta samningstímans ef þróun í efnahagsmálum myndi víkja markvert frá væntingum samningsaðila.

Þó þyrfti að hafa í huga að viðbragðið vinni ekki gegn markmiðum samningsaðila um minni verðbólgu og lægri vexti. Eitt dæmi sem hefur verið nefnt í viðræðunum er verðtrygging launa en það mun vera mat SA að slíkt myndi stuðla að víxlverkun launa og verðlags og þar með viðhalda meiri verðbólgu og hærra vaxtastigi.

Þá hafi reynst ótækt að skrifa inn í samninginn forsenduákvæði um þróun stýrivaxta. Slíkt ákvæði gæti gert Seðlabankanum erfiðara fyrir að tryggja kaupmátt launa og þannig gengið þvert gegn hagsmunum launafólks og vegið að sjálfstæði Seðlabankans.

Möguleiki á sveigjanleika

Í fyrrnefndri tilkynningu breiðfylkingarinnar sagði að allir langtíma kjarasamningar á síðustu áratugum hafi verið undirritaðir með forsenduákvæðum. Krafa SA um afnám slíkra forsenduákvæða í komandi kjarasamningi væri fáheyrð í kjarasamningagerð á Íslandi.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Samtök atvinnulífsins séu opin fyrir einhvers konar forsenduákvæðum en á árum áður hafi of víðtæk ákvæði aukið á efnahagslega óvissu.

Þörf sé á sveigjanleika til að hanna skynsamleg viðbrögð, til dæmis með því að nefnd skipuð samningsaðilum komi saman til að greina þróun efnahagsástæðna og gera tillögu að viðbragði á hverjum tíma. Þá hafi SA lagt fram tillögur á borð við sérstaka uppbót á taxta snemma á samningstímabilinu, svipað og kveðið var á um í Lífskjarasamningnum.

Einnig þurfi að hafa í huga að ef möguleiki væri á uppsögn samningsins snemma á samningstímabilinu, líkt og breiðfylkingin fer fram á, þá væri í raun ekki um langtímasamning að ræða. Hæpið væri að tala um hóflegar kröfur þegar sjálfkrafa viðbrögð um launahækkanir eiga svo að taka gildi á samningstímanum.