Óverðtryggðir raunvextir eru nú orðnir vel jákvæðir á flesta mælikvarða í fyrsta sinn síðan í upphafi áratugarins.

Þótt komið sé vel á þriðja ár síðan Seðlabankinn hóf yfirstandandi vaxtahækkunarferli og mörgum lántakendum sé farið að þykja nóg um sívaxandi greiðslubyrði óverðtryggðra lána höfðu vextir slíkra lána þar til um mitt þetta ár falið í sér neikvæða raunvexti allt frá því heimsfaraldurinn skall á í upphafi áratugarins og seðlabankinn hríðfelldi stýrivexti fyrir meira en þremur árum síðan.

Í júní síðastliðnum mældist 12 mánaða verðbólga svo loks lægri en vextir þeirra óverðtryggðu fasteignalána sem stóðu almenningi til boða og mánuði síðar féll hún um 1,3 prósentustig til viðbótar um svipað leyti og Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 1,25 prósentur.

Strangt til tekið fæst þó réttari mynd af raunvöxtum óverðtryggðra vaxta með því að bera þá saman við vænta verðbólgu næstu 12 mánaða. Seðlabankinn notar nokkra ólíka mælikvarða á verðbólguvæntingar til að leggja slíkt mat á raunstýrivexti bankans, og í öðru tölublaði Peningamála síðasta vor var greint frá því að þeir hefðu rofið formerkjamúrinn í fyrsta sinn frá febrúar 2020 og mældust nú jákvæðir um heil 0,2%.

Samhliða tilkynningu ákvörðunar Peningastefnunefndar um 50 punkta vaxtahækkun í síðustu viku var svo þriðja hefti Peningamála gefið út og þar kom fram að raunstýrivextir bankans hefðu tífaldast milli ársfjórðunga og mældust nú slétt 2%.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.