Í lok árs 2021 var reiðufé í umferð um 82 milljarðar króna, þar af um 50 milljarðar í 10 þúsund króna seðlum. Það jafngildir því að hver fullorðinn einstaklingur yfir 18 ára sé að jafnaði með um 280 þúsund krónur í reiðufé, þar af um 170 þúsund krónur í 10 þúsund króna seðlum.
Til samanburðar nam reiðufé í umferð 68 milljörðum í lok árs 2017 og jókst reiðufé í umferð um rúmlega hálfan milljarð milli áranna 2020 og 2021. Þó ber að hafa í huga að hlutfall reiðufjár af verðmæti landsframleiðslu hefur haldist nokkurn veginn stöðugt eftir hrun, á bilinu 2-2,5% af vergri landsframleiðslu.
Í samtali við Viðskiptablaðið segir Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, að reiðufé í umferð hafi aukist talsvert í kjölfar fjármálahrunsins 2008.
„Reiðufé í umferð jókst talsvert við þá óvissu sem fjármálahrunið 2008 olli og eftir það hefur reiðufé í umferð haldist á bilinu 2-2,5% af verðmæti landsframleiðslu,“ en samkvæmt gögnum Seðlabankans var reiðufé í umferð, fyrir fjármálahrunið 2008, um 1% af vergri landsframleiðslu.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.