Í markaðskönnun Viðskiptablaðsins kemur fram að mikill meirihluti þátttakenda, eða um 72%, telur að verðbólga verði á bilinu 3% til 4% í árslok 2026. Að meðaltali spá þátttakendur könnunarinnar 3,5% verðbólgu í lok næsta árs. Einungis 15% þeirra telja að hún verði á bilinu 2% og 3% og þar með í eða um markmið. Í því samhengi má nefna að í nýbirtri árlegri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er búist við að verðbólgumarkmið bankans náist á seinni helmingi næsta árs.

Könnunin var send á 220 markaðs- og greiningaraðila og bárust 80 svör sem jafngildir 36% svarhlutfalli.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,93% á milli mars og apríl og stóð í 4,2% á ársgrundvelli í apríl sl., líkt og í febrúar á þessu ári en hún mældist 3,8% í marsmánuði. Án húsnæðisliðarins hækkaði vísitalan einnig um 0,93% milli mánaða og mældist hækkunin 3,2% á ársgrundvelli.

Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 0,8% (áhrif á vísitöluna 0,12%) og kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 1,1% (0,22%). Flugfargjöld til útlanda hækkuðu einnig um 20,4% (0,40%).

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.