Hafnarfjarðarbær hefur að undanförnu gengið til samninga við lóðarhafa um uppbyggingu tæplega 600 íbúða í grennd við suðurhöfnina í Hafnarfirði, þ.e. við Hvaleyrarbraut og Óseyrarbraut.
Í dag voru undirritaðir samningar um uppbyggingu 148 íbúða við Hvaleyrarbraut 4 til 12 annars vegar og hins vegar 110 íbúða auk þjónusturýmis við Hvaleyrarbraut 20. Nýlega var gengið frá samkomulagi um uppbygginu 190 íbúða á Óseyrarbraut 13. Þá var greint var frá því í sumar að 144 íbúðir munu rísa við Hvaleyrarbraut 26-30 ásamt þjónusturýmum.
Samtals hefur því verið samið um uppbyggingu 592 íbúða á svæðinu. Í tilkynningu á vef Hafnarfjarðarbæjar segir að frekari uppbygging íbúða og þjónustu sé fyrirhuguð á þessu svæði á komandi árum.
„Við trúum því að Hafnarfjörður verði enn eftirsóknarverðari fyrir bæði íbúa og gesti við blöndun byggðarinnar. Það er mikilvægt að bjóða upp á fjölbreytta möguleika til búsetu í bænum og verður án efa eftirsótt að búa í nánd við sjóinn og höfnina í firðinum fagra,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar.
Íbúðahverfin sem um ræðir markast af Hvaleyrarbraut, Lónsbraut og Óseyrarbraut sunnan hafnarsvæðisins, m.a. svokallað Óseyrarhverfi. Lóðirnar hafa fram til þessa verið nýttar undir ýmiskonar atvinnustarfsemi. Hafnarfjarðarbær segir margar núverandi bygginga vera komnar til ára sinna og hafa þjónað sínu hlutverki.
„Notkun svæðisins hefur einfaldlega breyst í gegnum árin og er því mikilvægt að nýta þetta fallega svæði betur,“ segir Rósa.
Fyrirhuguð uppbygging við Hafnarfjarðarhöfn er sagt styðja við nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, Höfuðborgarsvæðið 2040, þar sem lögð sé áhersla á þéttingu byggðar og nærþjónustu.
„Hafnarsvæðið er mjög spennandi valkostur og lykilsvæði í bænum fyrir þéttingu byggðar. Það er framför að hverfa frá því að landssvæðin við sjó í þéttbýli séu eingöngu nýtt undir atvinnustarfsemi, eins og áður var, og gefa íbúum bæjarins tækifæri til að búa á stórkostlegum útsýnissvæðum.“