Heildar­hagnaður fast­eigna­fé­lagsins Reita á fyrstu sex mánuðum ársins nam 6,747 milljörðum króna sem er hækkun úr 4 milljörðum á fyrstu sex mánuðum ársins 2022.

Rekstrar­hagnaður Reita fyrir mats­breytingu nam 4,9 milljörðum króna á fyrri árs­helmingi sem er hækkun úr 4,4 milljörðum á sama tíma­bili í fyrra. Hagnaður á hlut var 9,1 króna á tíma­bilinu sem er hækkun úr 5,3 krónum á tíma­bilinu í fyrra.

Tekjur fé­lagsins á tíma­bilinu voru 7,3 milljarðar sem er tölu­verð hækkun frá 6,5 milljörðum á fyrri hluta árs 2022.

Arð­semi eigna hélst stöðugt á milli ára og var 5,7% sem er 0,1% hækkun frá tíma­bilinu í fyrra. Nýtingar­hlut­fall (tekju­vegið) var 96% sem er hækkun úr 94,9% í fyrra.

Hækka horfur um 100 milljónir króna

Virði fjár­festinga­eigna nam 185 milljörðum króna sem er hækkun úr 172 milljörðum í fyrra. Hand­bært og bundið fé fé­lagsins hækkar tölu­vert á milli ára og fer úr 871 milljón króna í 3,76 milljarða króna.

Vegna góðrar af­komu á fyrstu sex mánuðum ársins hafa Reitir hækkað horfur um tekjur og rekstrar­hagnað á árinu um 100 milljónir króna. Er nú gert ráð fyrir að tekjur ársins verði á bilinu 14,95 milljarðar króna til 15,15 milljarðar króna.

Fréttir af samrunaviðræðum við EIK væntanlegar

Í upp­gjörinu er tekið fram vænta megi frétta af sam­runa­við­ræðunum við EIK í fyrri hluta septem­ber­mánaðar en þar segir að sam­runa­við­ræðurnar séu í þeim far­vegi sem þeim var markaður í upp­hafi í sam­starfi við lög­fræði­lega og rekstrar­lega ráð­gjafa.

„Er við­ræðunum ætlað að gefa stjórnum fé­laganna svig­rúm til að greina eigna­söfn beggja fé­laga, heppi­lega um­gjörð við­skipta og skipu­lag sam­einaðs fé­lags,“ segir í upp­gjörinu.

Er þar einnig tekið fram að stjórnir fé­laganna tveggja telji um­tals­verð tæki­færi geta falist í sam­einingu þeirra og að sam­legðar­á­hrifin birtist einkum í aukinni rekstrar­hag­kvæmni, aukinni sér­hæfingu, bættri þjónustu við krefjandi markaði og hraðari tekju­myndun af upp­byggingu þróunar­eigna.

Heildareignir yfir 190 milljarðar

Heildar­eignir sam­stæðunnar í lok júní námu 190.957 millj. kr. og eigið fé var 60.370 millj. kr. sam­kvæmt efna­hags­reikningi. Eigin­fjár­hlut­fall var 32% í lok hálfa ársins.

Skráð heildar­hluta­fé fé­lagsins í lok árs­fjórðungsins nam 746 milljónum króna. Við lok árs­fjórðungsins átti fé­lagið eigin hluta­bréf að nafn­verði 13 milljón króna.

Lækkun hluta­fjár vegna eigin hluta­bréfa að nafn­virði 17 millj. kr. var sam­þykkt á aðal­fundi fé­lagsins 8. mars 2023. Form­leg skráning lækkunarinnar fór fram 18. apríl sl.

Arð­greiðsla að fjár­hæð 1,89 kr. á hlut eða 1,403 milljarður króna, sem sam­þykkt var á aðal­fundi 8. mars 2023, var greidd út 31. mars 2023.

Stórum fram­kvæmda­verk­efnum á vegum fé­lagsins miðar vel en á fyrri hluta árs námu eign­færðar fram­kvæmdir 2,9 milljörðum króna

„Rekstur Reita gekk vel fyrri hluta ársins 2023. Rekstrar­hagnaður óx lítil­lega um­fram verð­lag og góður gangur hefur verið í út­leigu. Stórum fram­kvæmda­verk­efnum á vegum fé­lagsins miðar vel en á fyrri hluta árs námu eign­færðar fram­kvæmdir 2,9 milljörðum króna. Stærstu verk­efnin undan­farin misseri felast í stækkun Klíníkurinnar í Ár­múla og vöru­húss Að­fanga við Skútu­vog. Endur­bætur og breytingar í Holta­görðum ganga sam­kvæmt á­ætlun, þar opnaði Bónus nýja verslun í júlí og þrjú ný s. k. premium out­let koma til með að opna þar í haust,“ segir Guð­jón Auðuns­son for­stjóri Reitar í upp­gjöri.

Eiga alls 135 fasteignir

Sam­stæða fé­lagsins saman­stendur af móður­fé­laginu, Reitum fast­eigna­fé­lagi hf., á­samt dóttur­fé­lögum, sem öll eru að fullu í eigu móður­fé­lagsins. Fast­eignir í eigu fé­lagsins eru um 135 talsins, um 455 þúsund fer­metrar að stærð.