Heildarhagnaður fasteignafélagsins Reita á fyrstu sex mánuðum ársins nam 6,747 milljörðum króna sem er hækkun úr 4 milljörðum á fyrstu sex mánuðum ársins 2022.
Rekstrarhagnaður Reita fyrir matsbreytingu nam 4,9 milljörðum króna á fyrri árshelmingi sem er hækkun úr 4,4 milljörðum á sama tímabili í fyrra. Hagnaður á hlut var 9,1 króna á tímabilinu sem er hækkun úr 5,3 krónum á tímabilinu í fyrra.
Tekjur félagsins á tímabilinu voru 7,3 milljarðar sem er töluverð hækkun frá 6,5 milljörðum á fyrri hluta árs 2022.
Arðsemi eigna hélst stöðugt á milli ára og var 5,7% sem er 0,1% hækkun frá tímabilinu í fyrra. Nýtingarhlutfall (tekjuvegið) var 96% sem er hækkun úr 94,9% í fyrra.
Hækka horfur um 100 milljónir króna
Virði fjárfestingaeigna nam 185 milljörðum króna sem er hækkun úr 172 milljörðum í fyrra. Handbært og bundið fé félagsins hækkar töluvert á milli ára og fer úr 871 milljón króna í 3,76 milljarða króna.
Vegna góðrar afkomu á fyrstu sex mánuðum ársins hafa Reitir hækkað horfur um tekjur og rekstrarhagnað á árinu um 100 milljónir króna. Er nú gert ráð fyrir að tekjur ársins verði á bilinu 14,95 milljarðar króna til 15,15 milljarðar króna.
Fréttir af samrunaviðræðum við EIK væntanlegar
Í uppgjörinu er tekið fram vænta megi frétta af samrunaviðræðunum við EIK í fyrri hluta septembermánaðar en þar segir að samrunaviðræðurnar séu í þeim farvegi sem þeim var markaður í upphafi í samstarfi við lögfræðilega og rekstrarlega ráðgjafa.
„Er viðræðunum ætlað að gefa stjórnum félaganna svigrúm til að greina eignasöfn beggja félaga, heppilega umgjörð viðskipta og skipulag sameinaðs félags,“ segir í uppgjörinu.
Er þar einnig tekið fram að stjórnir félaganna tveggja telji umtalsverð tækifæri geta falist í sameiningu þeirra og að samlegðaráhrifin birtist einkum í aukinni rekstrarhagkvæmni, aukinni sérhæfingu, bættri þjónustu við krefjandi markaði og hraðari tekjumyndun af uppbyggingu þróunareigna.
Heildareignir yfir 190 milljarðar
Heildareignir samstæðunnar í lok júní námu 190.957 millj. kr. og eigið fé var 60.370 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi. Eiginfjárhlutfall var 32% í lok hálfa ársins.
Skráð heildarhlutafé félagsins í lok ársfjórðungsins nam 746 milljónum króna. Við lok ársfjórðungsins átti félagið eigin hlutabréf að nafnverði 13 milljón króna.
Lækkun hlutafjár vegna eigin hlutabréfa að nafnvirði 17 millj. kr. var samþykkt á aðalfundi félagsins 8. mars 2023. Formleg skráning lækkunarinnar fór fram 18. apríl sl.
Arðgreiðsla að fjárhæð 1,89 kr. á hlut eða 1,403 milljarður króna, sem samþykkt var á aðalfundi 8. mars 2023, var greidd út 31. mars 2023.
Stórum framkvæmdaverkefnum á vegum félagsins miðar vel en á fyrri hluta árs námu eignfærðar framkvæmdir 2,9 milljörðum króna
„Rekstur Reita gekk vel fyrri hluta ársins 2023. Rekstrarhagnaður óx lítillega umfram verðlag og góður gangur hefur verið í útleigu. Stórum framkvæmdaverkefnum á vegum félagsins miðar vel en á fyrri hluta árs námu eignfærðar framkvæmdir 2,9 milljörðum króna. Stærstu verkefnin undanfarin misseri felast í stækkun Klíníkurinnar í Ármúla og vöruhúss Aðfanga við Skútuvog. Endurbætur og breytingar í Holtagörðum ganga samkvæmt áætlun, þar opnaði Bónus nýja verslun í júlí og þrjú ný s. k. premium outlet koma til með að opna þar í haust,“ segir Guðjón Auðunsson forstjóri Reitar í uppgjöri.
Eiga alls 135 fasteignir
Samstæða félagsins samanstendur af móðurfélaginu, Reitum fasteignafélagi hf., ásamt dótturfélögum, sem öll eru að fullu í eigu móðurfélagsins. Fasteignir í eigu félagsins eru um 135 talsins, um 455 þúsund fermetrar að stærð.