Reitir fasteignafélag hefur gengið til samninga um kaup á Lambhagavegi 7 í Reykjavík af dótturfélagi ATP Holding ehf., sem er í 92% eigu Róberts Wessman, samkvæmt fyrirtækjaskrá, í gegnum sænska félagið Alvogen Aztiq AB. Heildarvirði kaupanna er 2.200 milljónir króna og verður að fullu fjármagnað með handbæru fé og lánsfé.

Í tilkynningu Reita til Kauphallarinnar segir að um sé að ræða 4.200 fermetra af nýju og vönduðu lagerhúsnæði sem hýsir rekstur líftæknifyrirtækisins Alvotech. Áætlaðar leigutekjur og rekstrarhagnaður á ári nemur um 155 milljónum en um þurrleigusamning til 16 ára er að ræða.

Fram kemur að áætluð afhending verði þann 1. október en hún mun fara fram þegar fyrirvörum um viðskiptin hefur verið aflétt. Fyrirvarar eru gerðir um niðurstöður hefðbundinna áreiðanleikakannana, og samþykki stjórnar Reita.

Sjá einnig: Greiða Aztiq 1,9 milljarða í leigu á ári

Alvotech tók húsnæðið að Lambhagavegi 7 í notkun í lok síðasta árs. „Byggingin mun hýsa lager og rannsóknarstofur fyrir hráefni til lyfjagerðar, ásamt skrifstofum , en gert er ráð fyrir að um 40 manns starfi í húsinu að jafnaði,“ sagði Alvotech við það tilefni.

Húsnæði Alvotech á Lambhagavegi 7
Húsnæði Alvotech á Lambhagavegi 7