Reitir tilkynnir að félagið hafi sett upp nýjar hraðhleðslustöðvar við Sunnumörk 1 í Hveragerði en nýju stöðvarnar eru sagðar vera liður í stefnu Reita í að bjóða þjónustulausnir og taka þátt í uppbyggingu samfélagsins.
Hleðsluafköst stöðvanna er 240 kW með fjórum CCS-tengjum og getur hver stöð hlaðið allt að fjóra bíla samtímis. Auk hraðhleðslustöðvanna hafa einnig verið settar upp átta venjulegar 22 kW hleðslustöðvar.
„Hveragerðisbær er á mikilli siglingu og hér er áberandi gæðauppbygging í byggða- og þjónustumálum. Hraðhleðslugarður er mikilvæg þjónusta við rafbílaeigendur og eykur enn á innviðastyrk samfélagsins,“ segir Pétur G. Markan, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.
Verkefnið er unnið í samstarfi við Ísorku, sem sér um rekstur stöðvanna, og Orkusjóð.
„Með hraðhleðslustöðvum mætum við aukinni þörf fyrir rafhleðsluinnviði á fjölförnum leiðum um landsbyggðina og styðjum við umhverfisvænni samgöngur. Staðsetning stöðvanna í Hveragerði er einstaklega hentug fyrir bæði íbúa og þau sem eiga ferð um en stöðvarnar eru í nánd við ýmsa þjónustu og verslun í bænum,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstjóri Reita.