Tap félagsins geoSilica, sem framleiðir fæðubótaefni, nam 6 milljónum króna árið 2022 en hagnaður var af rekstrinum um 10 milljónir árið áður. Tekjur námu 72 milljónum, samanborið við 80 milljónir árið 2021. Eigið fé í árslok var 14 milljónir og eignir 42 milljónir.
Í skýrslu stjórnar segir stjórnendur telji félagið rekstrarhæft þrátt fyrir taprekstur. Áframhaldandi rekstrarhæfi til næstu missera sé þó háð opinberum styrkveitingum, bættri afkomu og/eða hlutafjáraukningu.
Fida Abu Libdeh er stærsti hluthafi félagsins. geoSilica hf. er einnig móðurfélag tveggja dótturfélaga í Bandaríkjunum og í Hollandi en ekki kemur fram í ársreikningi hvort um samstæðureikning sé að ræða.