Tekjur Al­vot­ech námu 339 milljónum Bandaríkja­dala, eða um 47,3 milljörðum króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Um 300 milljóna dala tekju­aukningu er að ræða á milli ára en tekjur félagsins á þriðja árs­fjórðungi námu 103 milljónum dala.

Rekstrar­hagnaður var 56,2 milljónir dala á fyrstu níu mánuðum ársins saman­borið við tap upp á 277,7 milljónir dala á sama tíma­bili í fyrra.

Sam­kvæmt upp­gjörinu má rekja þessa aukningu upp á 333,9 milljónir dala einkum til aukinnar vörusölu og hærri greiðslna vegna áfanga sem náðust í lyfjaþróun og sölu.

Tekjur Al­vot­ech af vörusölu á fyrstu níu mánuðum ársins meira en fjórfölduðust frá sama tíma­bili í fyrra í 128 milljónir dala, en þar af voru tekjur á þriðja árs­fjórðungi 62 milljónir dala.

Áfanga­greiðslur og aðrar tekjur á tíma­bilinu námu 211 milljónum dala sem er um 203 milljóna dala aukning frá fyrra ári en þar af voru tekjur á þriðja árs­fjórðungi 41 milljón dala.

„Við erum afar ánægð með niður­stöðuna eftir þriðja árs­fjórðung og fyrstu níu mánuði ársins. Þetta er annar árs­fjórðungurinn í röð þar sem við skilum rekstrar­hagnaði og jákvæðri EBITDA fram­legð. Tekjur af vörusölu jukust milli fjórðunga og við höfum tvöfaldað fram­legðar­hlut­fall af vörusölu, sem rekja má til bættrar nýtingar og vaxandi af­kasta í lyfja­fram­leiðslunni í Vatns­mýri,“ segir Róbert Wess­man, stjórnar­for­maður og for­stjóri Al­vot­ech, í upp­gjörinu

Aðlöguð EBITDA fram­legð á fyrstu níu mánuðum ársins var 87 milljónir dala, sem sam­svarar um 12,1 milljarði króna á gengi dagsins, en hún var neikvæð um 225 milljónir dala á sama tíma­bili í fyrra.

Aðlöguð EBITDA fram­legð á þriðja fjórðungi var 23 milljónir dala.

„Við fögnum einnig stórum áföngum í lyfjaþróun, þar sem við höfum nú fengið þrjár um­sóknir um markaðs­leyfi samþykktar til af­greiðslu í Evrópu og hleyptum af stokkunum stað­festingar­rannsókn á sjúklingum fyrir AVT16, fyrir­hugaða lyfja­hliðstæðu við En­ty­vio. Þessi miklu af­köst í rannsóknum og þróun birtast ekki bara í myndar­legum áfanga­greiðslum, heldur leggja einnig grunninn að vaxandi og fjöl­breyttari tekju­stoðum í náinni framtíð,“ segir Róbert.

Bókfært tap um 165 milljónir dala

Í lok septem­ber átti félagið 118,3 milljónir dala í lausu fé en skuldaði rúman milljarð dala, að meðtöldum 22,2 milljóna dala af­borgun á næsta ári.

Kostnaðar­verð seldra vara var 105 milljónir dala á fyrstu níu mánuðum ársins sem er í samræmi við kostnaðar­verð tíma­bilsins í fyrra.

Rannsóknar- og þróunar­kostnaður lækkaði úr 152,8 milljónum dala í fyrra í 131,1 milljón dala á fyrstu níu mánuðum ársins í ár.

Bók­fært tap á fyrstu níu mánuðum ársins nam 164,9 milljónum dala í saman­burði við 275,2 milljóna dala tap á sama tíma­bili í fyrra.

„Rekja má stærsta hluta bók­færðs taps á fyrstu níu mánuðum ársins til færslna sem ekki hafa áhrif á hand­bært fé, það er gang­virðis­breytinga á af­leiðu­tengdum skuldum sem einkum leiða af hækkun á markaðs­gengi hluta­bréfa Al­vot­ech, og eru færðar sem fjár­magns­gjöld, auk áhrifa af endur­fjár­mögnun útistandandi skulda félagsins,“ segir í upp­gjörinu.

Al­vot­ech gerði samning um nýja láns­fjár­mögnun í byrjun júní að fjár­hæð 965 milljónir dala. Samkvæmt uppjgörinu gerir lánsamningurinn félaginu kleift að lækka fjár­magns­kostnað, endur­fjár­magna skuldir með gjald­daga á árinu 2025 og bæta lausa­fjár­stöðu sína.

Lánið er með gjald­daga í júlí 2029 og var greitt út í júlí.