Tekjur Alvotech námu 339 milljónum Bandaríkjadala, eða um 47,3 milljörðum króna, á fyrstu níu mánuðum ársins. Um 300 milljóna dala tekjuaukningu er að ræða á milli ára en tekjur félagsins á þriðja ársfjórðungi námu 103 milljónum dala.
Rekstrarhagnaður var 56,2 milljónir dala á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við tap upp á 277,7 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.
Samkvæmt uppgjörinu má rekja þessa aukningu upp á 333,9 milljónir dala einkum til aukinnar vörusölu og hærri greiðslna vegna áfanga sem náðust í lyfjaþróun og sölu.
Tekjur Alvotech af vörusölu á fyrstu níu mánuðum ársins meira en fjórfölduðust frá sama tímabili í fyrra í 128 milljónir dala, en þar af voru tekjur á þriðja ársfjórðungi 62 milljónir dala.
Áfangagreiðslur og aðrar tekjur á tímabilinu námu 211 milljónum dala sem er um 203 milljóna dala aukning frá fyrra ári en þar af voru tekjur á þriðja ársfjórðungi 41 milljón dala.
„Við erum afar ánægð með niðurstöðuna eftir þriðja ársfjórðung og fyrstu níu mánuði ársins. Þetta er annar ársfjórðungurinn í röð þar sem við skilum rekstrarhagnaði og jákvæðri EBITDA framlegð. Tekjur af vörusölu jukust milli fjórðunga og við höfum tvöfaldað framlegðarhlutfall af vörusölu, sem rekja má til bættrar nýtingar og vaxandi afkasta í lyfjaframleiðslunni í Vatnsmýri,“ segir Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech, í uppgjörinu
Aðlöguð EBITDA framlegð á fyrstu níu mánuðum ársins var 87 milljónir dala, sem samsvarar um 12,1 milljarði króna á gengi dagsins, en hún var neikvæð um 225 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.
Aðlöguð EBITDA framlegð á þriðja fjórðungi var 23 milljónir dala.
„Við fögnum einnig stórum áföngum í lyfjaþróun, þar sem við höfum nú fengið þrjár umsóknir um markaðsleyfi samþykktar til afgreiðslu í Evrópu og hleyptum af stokkunum staðfestingarrannsókn á sjúklingum fyrir AVT16, fyrirhugaða lyfjahliðstæðu við Entyvio. Þessi miklu afköst í rannsóknum og þróun birtast ekki bara í myndarlegum áfangagreiðslum, heldur leggja einnig grunninn að vaxandi og fjölbreyttari tekjustoðum í náinni framtíð,“ segir Róbert.
Bókfært tap um 165 milljónir dala
Í lok september átti félagið 118,3 milljónir dala í lausu fé en skuldaði rúman milljarð dala, að meðtöldum 22,2 milljóna dala afborgun á næsta ári.
Kostnaðarverð seldra vara var 105 milljónir dala á fyrstu níu mánuðum ársins sem er í samræmi við kostnaðarverð tímabilsins í fyrra.
Rannsóknar- og þróunarkostnaður lækkaði úr 152,8 milljónum dala í fyrra í 131,1 milljón dala á fyrstu níu mánuðum ársins í ár.
Bókfært tap á fyrstu níu mánuðum ársins nam 164,9 milljónum dala í samanburði við 275,2 milljóna dala tap á sama tímabili í fyrra.
„Rekja má stærsta hluta bókfærðs taps á fyrstu níu mánuðum ársins til færslna sem ekki hafa áhrif á handbært fé, það er gangvirðisbreytinga á afleiðutengdum skuldum sem einkum leiða af hækkun á markaðsgengi hlutabréfa Alvotech, og eru færðar sem fjármagnsgjöld, auk áhrifa af endurfjármögnun útistandandi skulda félagsins,“ segir í uppgjörinu.
Alvotech gerði samning um nýja lánsfjármögnun í byrjun júní að fjárhæð 965 milljónir dala. Samkvæmt uppjgörinu gerir lánsamningurinn félaginu kleift að lækka fjármagnskostnað, endurfjármagna skuldir með gjalddaga á árinu 2025 og bæta lausafjárstöðu sína.
Lánið er með gjalddaga í júlí 2029 og var greitt út í júlí.