Fjölmiðla- og fjarskiptafélagið Sýn hagnaðist um 181 milljón króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 172 milljónir á sama tímabili í fyrra. Sýn birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Tekjur drógust lítillega saman á milli ára og námu 5,5 milljörðum. Framlegð félagsins jókst hins vegar um 7,6% á milli ára og nam 2 milljörðum á fjórðungnum. Rekstrarhagnaður Sýnar jókst um 15% og nam 486 milljónum.

„Það er ánægjulegt að rekstrarbati heldur áfram og rekstrarhagnaður eykst. Tekjuvöxtur á fyrstu 9 mánuðum árs nemur 8,7% og er drifinn áfram af aukningu í farsímatekjum og góðu gengi í fjölmiðlastarfseminni. Sýn er með fjölbreytta starfsemi og mikil sóknartækifæri til vaxtar og aukinnar framlegðar,“ segir Yngvi Halldórsson, sem tók við sem forstjóri Sýnar í lok september.

„Á undanförnum þremur árum hefur verið mikill viðsnúningur á starfseminni. Umtalsverðar breytingar hafa orðið hjá okkur á undanförnum vikum. Tekin er við ný stjórn og forstjóri. Það er einhugur í okkur að byggja ofan á þann rekstrarbata sem orðið hefur. Við erum að koma fram með spennandi nýjungar í vöruframboðinu okkar þar sem sótt verður fram og á sama tíma að vinna í að bæta framlegð og reksturinn í heild.“

Yngvi segir jafnframt að Sýn hyggist leggja áherslu á að lækka fjárfestingar í erlendum sýningarréttum og styrkja innlenda dagskrárgerð sem hann segir að muni skila sér í áframhaldandi rekstrarbata.

Í byrjun september undirritaði Sýn samkomulag um einkaviðræður vegna sölu á grunnneti sínu til Ljósleiðarans á 3,0 milljarða króna. Sýn færði 564 milljónir á eignir til sölu í lok september vegna þessa. Í uppgjörstilkynningunni segir að sölunni fylgi hagræðing í rekstri og minni fjárfestingaþörf.

Eignir Sýnar voru bókfærðar á 32,5 milljarða króna í lok september og eigið fé nam rúmum 9,1 milljarði.

„Verkefni okkar er að gera Sýn að enn áhugaverðari fjárfestingakosti. Við viljum fjölga hluthöfum og stór þáttur í því er að lýsa vegferðinni og þeim verðmætum sem í félaginu felast. Það munum við kappkosta að gera á næstunni,” segir Yngvi.