Verslunarsamstæðan Fagkaup hagnaðist um 1,4 milljarða króna á síðasta ári, en til samanburðar hagnaðist samstæðan um 1,9 milljarða árið áður.

Rekstrartekjur námu 25,6 milljörðum króna á síðasta ári og hækkuðu um 413 milljónir króna milli ára eða um tæp 2%. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2,8 milljörðum króna og dróst saman um 716 milljónir á milli ára.

Eignir samstæðunnar námu 15,6 milljörðum króna í árslok 2024, samanborið við 14,4 milljarða eignir í lok árs 2023. Skuldir námu 8,7 milljörðum í lok síðasta árs og lækkuðu um 114 milljónir milli ára.

Eigið fé nam 6,9 milljörðum króna um síðustu áramót, samanborið við 5,6 milljarða í lok árs 2023. Fagkaup er í eigu hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur. Haraldur Líndal Pétursson er forstjóri Fagkaupa.

Rekstrarniður­staðan undir væntingumÁ Akureyri var opnuð ný og endurbætt verslun og í Kópavogi opnaði verslunin Þétt sem sérhæfir sig í þétti- og frágangsvörum fyrir byggingariðnaðinn.

Fagkaup er samstæða 12 íslenskra rekstrareininga sem sumar hverjar hafa starfað frá árinu 1921 og í upphafi voru rekin sem sjálfstæð fyrirtæki.

Í lok síðasta árs voru undir Fagkaups-samstæðunni fyrirtækin Johan Rönning, S. Guðjónsson, Sindri, Fossberg, KH vinnuföt, Áltak, Hagblikk, Þétt, Vatn og veitur, Ísleifur og Varma og vélaverk.

Nýlega bættist Jóhann Ólafsson & Co ehf., félag sem sérhæfir sig í þjónustu og sölu á ljósaperum og lýsingarbúnaði, við samstæðuna. Fagkaup náði samkomulagi um kaup á félaginu síðasta sumar og samþykkti Samkeppniseftirlitið kaupin í febrúar sl.

Þá náði Fagkaup á dögunum samkomulagi um kaup á 70% hlut í DS Lausnum sem sérhæfir sig í sölu, útleigu og þjónustu byggingakrana. Viðskiptin eru til meðferðar hjá SKE, en frestur eftirlitsins til að ljúka fyrsta fasa rannsóknarinnar rennur út í næstu viku, mánudaginn 17. mars.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.