Flugfélagið Play skilaði 1,3 milljóna dala rekstrarhagnaði (EBIT) á þriðja ársfjórðungi, eða sem nemur um 190 milljónum króna, samanborið við 14,4 milljóna dala rekstrartap á öðrum fjórðungi. Flugfélagið segir þó að áætlanir um rekstrarhagnað á síðustu sex mánuðum muni ekki standast.
Tap á þriðja fjórðungi nam 2,9 milljónum dala eða um 430 milljónum króna miðað við gengi dagsins.
„Að baki er fyrsti ársfjórðungurinn þar sem við starfræktum alla tengiflugsáætlun okkar. Þar sem meirihluti áfangastaða okkar var glænýr í leiðakerfinu var vörumerki Play að mestu óþekkt á mörkuðunum. Í ljósi þessa lít ég á það sem sannkallað afrek að ungt fyrirtæki nái rekstrarhagnaði og hvað þá við þær ytri aðstæður sem við höfum starfað við. Það er alls ekki sjálfsagt,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í uppgjörstilkynningu sem var send út eftir lokun Kauphallarinnar.
„Markmið okkar um jákvæða rekstrarafkomu fyrir síðari hluta ársins í heild munu ekki standast og það hefði verið ánægjulegra að sjá enn betri niðurstöðu á þessum fjórðungi, en krefjandi ytri aðstæður hafa haft áhrif á okkur. Auk þess hefur tekjuvöxtur verið hægari en við gerðum ráð fyrir.“
Minni eftirspurn en búist var við
Flugfélagið segir að almenn eftirspurn frá farþegum til Íslands hafi verið minni síðsumars en búast mátt við „þar sem mörg hótel voru uppbókuð og bílaleigubílar sömuleiðis“. Fyrir vikið hlutfall tengifarþega aukist en þeir skili minni tekjum. Á sama tíma hélst olíuverð hátt.
Hliðartekjur hafi einnig verið minni en vænta mátti „en þar skipti mestu aukin eftirspurn eftir handfarangri í stað innritaðs farangurs. Ástæða þeirra breytinga var ótti farþega við erfiðleika á flugvöllum víða um heim“.
Play segir þó að þróunin hafi snúist við að undanförnu. Íslensk ferðaþjónusta hafi meira svigrúm til að taka við farþegum. Þá hafi inneignum ferðamanna hjá öðrum ferðaþjónustuaðilum, sem fengust höfðu í faraldrinum og nýttar voru í miklum mæli á þessu ári, fækkað til muna.
Færir niður tekjuspá
Tekjur Play á þriðja ársfjórðungi námu 59,9 milljónum dala, eða um 8,9 milljörðum króna, samanborið við 32,5 milljónir á öðrum ársfjórðungi.
Rekstrarspá Play hefur verið færð niður en flugfélagið áætlar að tekjur í ár verði í kringum 140 milljónir dala. Í uppgjöri fyrir annan ársfjórðung gerði félagið ráð fyrir 150-160 milljónum dala í rekstrartekjur í ár. Spá um 800 þúsund farþega í ár er þó óbreytt.
Play áætlar að velta félagsins verði á bilinu 310-330 milljónir dala eða í kringum 46 milljarðar króna. Flugfélagið reiknar einnig með að skila jákvæðum rekstrarhagnaði fyrir allt árið 2023.
Play segir þó að markmið um einingakostnað á þriðja ársfjórðungi hafi staðist „og gott betur“. Félagið miðar við kostnað undir fjórum bandaríkjasentum að frátöldum eldsneytiskostnaði en endanleg niðurstaða á fjórðungnum voru 3,1 sent.
81,9% sætanýting í október
Play kynnti einnig farþegatölur fyrir októbermánuð. Um 92 farþegar flugu með Play í síðasta mánuði og sætanýtingin var 81,9%. Farþegar á þriðja fjórðungi voru um 311 þúsund talsins en sætanýting á fjórðungnum var um 85%. Play áætlar að flytja 1,5-1,7 milljónir farþega á næsta ári.
„Play sér ört vaxandi bókunarflæði til landsins inn í veturinn og næsta ár. Ferðamálastofa spáir um 40% fleiri farþegum til landsins árið 2023 miðað við 2022, sem mun tvímælalaust skila sér í jákvæðum áhrifum á rekstur Play,“ segir í tilkynningunni. „Þá er strax farið að bera á traustu bókunarflæði frá ferðaskrifstofum, sérstaklega með farþega til landsins.“