Ríkisútvarpið er of skuldsett og erfitt verður fyrir ríkismiðilinn að standa í skilum á skammatímaskuldbindingum án þess að auka skuldir við lánastofnanir enn frekar. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar Ríkisútvarpsins frá 22. mars.

Á fundinum var farið yfir rekstur Ríkisútvarpsins á síðasta ári. Tæplega 200 milljón króna halli var á rekstrinum þó svo að tekjur hafi aukist um ríflega 400 milljónir króna og námu meira en níu milljörðum. Rekstrargjöldin námu tæplega níu milljörðum og hækkuðu um 730 milljarða milli ára.

Fram kemur í fundargerðinni að meðalfjöldi stöðugilda hafi verið 275 í fyrra en hafi fækkað á síðari hluta ársins. Eigi að síður jukust laun- og launatengd gjöld um tæplega 200 milljónir á árinu.

Ekki hægt að mæta skammtímaskuldum

Endurskoðendur Ríkisútvarpsins fóru yfir stöðuna með stjórninni á fundinum. Þeir vöktu athygli á að veltufé frá rekstri hafi lækkað um tæplega 300 milljónir á árinu og það sé það lágt „og að öllu óbreyttu verði erfitt fyrir félagið að standa í skilum með skammtímaskuldir án þess að komi til aukning skulda við lánastofnanir.“

Vinnufundur um birgðaþök

Fram kemur í lok fundargerðarinnar að stjórnin hafi gripið til ýmissa aðgerða „til að bæta eftirfylgni með rekstri og sjóðsstöðu félagsins“. Áframhald verði á því. Til marks um það hefur stjórnin ákveðið að halda sérstakan vinnufund „um birgðaþök og sýningarétti“ síðar á árinu.