Knattspyrnudeild Vals hagnaðist um 51,6 milljónir króna á árinu 2021 eftir 24,5 milljóna tap árið 2020 samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins.

Eftir samdráttarári árið 2020 þar sem leikmenn tókum meðal annars á sig launalækkun vegna heimsfaraldursins var reksturinn nú áþekkur og árið 2019. Á árinu varð kvennalið félagsins Íslandsmeistari en karlalið félagsins lenti í 5. sæti í Pepsi Max deildinni.

Sjá einnig: Gjá milli efstu liða og annarra

Rekstrartekjur knattspyrnudeildar Vals námu 375 milljónum króna en voru 220 milljónir árið 2020. Mestu munar um liðinn aðrar rekstrartekjur sem hækkar úr 45 milljónum í 198 milljónir á milli ára. Þá hækkuðu laun og launatengd gjöld úr 197 milljónum króna í 252 milljónir króna á milli ára. Alls hækkaði rekstrarkostnaður úr 247 milljónum í 344 milljónir króna á milli ára. Auk þess nam hagnaður af sölu leikmanna 21 milljónum króna.

Eigið fé knattspyrnudeildar Vals nam 148 milljónum um síðustu áramót. Leikmannahópur Vals er bókfærður á 34,4 milljónir króna.

Sjá einnig: Tveggja milljarða hagnaður Valsfélags

Valur hefur undanfarin ár notið góðs af hagnaði af uppbyggingu nýrrar byggðar á Hlíðarenda. Félagið Hlíðarfótur ses. var stofnað um hlutdeild Vals í uppbyggingunni. Hlíðarfótur styrkti Val um 200 milljónir árið 2020, 276 milljónir árið 2019 og 190 milljónir árið 2018, eða alls nær 670 milljónir á þremur árum. Hlíðarfótur á til að mynda yfir 80% hlut í félaginu Valsmenn hf, sem eiga svo  helmingshlut í félaginu Hlíðarfótur. Hlíðarfótur hagnaðist um tvo milljarða króna árið 2020 og lagt var til að greiða tvo milljarða í arð til hluthafa.