Réttarhöld yfir 27 einstaklingum sem ákærðir eru í tengslum við Panamaskjölin eru hafin í Panama. Meðal sakborninganna eru Jurgen Mossack og Ramon Fonseca Mora sem stofnuðu lögfræðistofuna Mossack Fonseca.

Stofan hefur nú hætt allri starfsemi en leki leynilegra gagna í apríl árið 2016 sýndi hvernig lögfræðistofan aðstoðaði viðskiptavini sína við að koma fjármunum sínum fyrir í aflandseyjum og skattaskjólum.

Mossack og Fonseca neita að hafa tekið þátt í ólöglegri starfsemi að sögn BBC en árið 2017 sagði fyrirtækið að það hefði verið fórnarlamb tölvuárásar og að upplýsingarnar sem láku hafi verið rangar. Verði þeir fundnir sekir gætu lögfræðingarnir tveir átt yfir höfði sér allt að tólf ára fangelsi hvor.

Lekinn innihélt meira en 11 milljónir skjala, tölvupósta og stofnskjala aflandsfélaga en í gögnunum fundist um 800 aflandsfélög sem tengdust 600 Íslendingum.

Meðal þeirra stjórnmálamanna sem tengdust skjölunum voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson, Ólöf Nordal, Júlíus Vífill Ingvarsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.

Árið 2016 voru einnig 57 íslenskir sjómenn kærðir af skattrannsóknarstjóra í tengslum skjölin, en allir störfuðu þeir hjá íslenskum útgerðum erlendis. Sumir þeirra unnu hjá útgerðinni Sjólaskipum í Afríku, sem varð síðar Hafnarfell hf. og var svo selt til Samherja.