Citymapper hefur tekið Reykjavík inn í vegvísakerfi sitt og þar með lokið Evrópuútrás sinni, en vegvísar þess ná nú yfir allar stærri borgir í Evrópu, Bandaríkjunum og víða annars staðar.

Vegvísunarapp Citymapper er margverðlaunað og hefur meðal annars verið á lista Apple yfir öpp ársins fimm ár í röð auk þess að vera á lista Google yfir öpp ársins og í Editors' Choice.

Appið hjálpar notendum að finna bestu mögulegu leið milli staða með því að samtvinna gögn frá samgöngufyrirtækjum á svæðinu, með upplýsingum í rauntíma og ítarlegum leiðbeiningum fyrir hvern legg ferðarinnar.

Vegvísir Citymapper í Reykjavík veitir upplýsingar um strætóferðir, flugrútuna, leigubíla, gönguleiðir og hjólaleiðir þar sem tekið er mið af hækkun á leiðinni og jafnframt vísað á leiguhjól í nágrenni notandans. Þá munu upplýsingar um rafhlaupahjól til leigu í nágrenni notandans verða aðgengilegar í vegvísinum innan tíðar.

Allir ferðamátar á einum stað

Í tilkynningu frá Citymapper segir að fyrirtækið skeri sig úr meðal samkeppnisaðila vegna þess hve ítarleg samgöngugögn þess séu og hvernig þau tvinni saman upplýsingar um alla ferðamáta. Þar segir að vegna þess hve ferðamátar í borgum séu sífellt að verða fjölbreyttari, meðal annars með tilkomu rafhjóla, rafhlaupahjóla, skellinaðra og deilihagkerfis til viðbótar við hefðbundna samgöngumáta, hafi Citymapper tekið alla valkostina saman í einn vegvísi, svo að notendur geti komist milli staða með hvaða hætti sem er.

Fram kemur að fyrir tilstilli umfangsmikilla gagna, sérsniðinna lausna og teymis greiningarsérfræðinga veiti Citymapper nákvæmustu upplýsingar sem í boði eru á hverju svæði, þá meðal annars um brottfarartíma, umferðartafir, hjáleiðir, hentugustu samgöngumátana, hentugustu stoppistöðvarnar og rauntíma umferðargreiningu.

Citymapper í Reykjavík
Citymapper í Reykjavík

App Citymapper veitir skemmtilega fróðleiksmola um ferðir notenda hverju sinni.