InfoCapital, fjárfestingarfélag Reynis Grétarssonar, stofnanda Creditinfo, hagnaðist um 10,3 milljarða króna eftir að hafa selt yfir þriðjungshlut í Creditinfo til framtakssjóðsins Levine Leichtman Capital Partners (LLCP) á síðasta ári en Reynir átti fyrir ríflega 70% hlut í fyrirtækinu. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins.

Í sjóðstreymiyfirleiti kemur fram að Reynir hafi selt hlutabréf fyrir alls 13,5 milljarða króna á síðasta ári. Á móti fjárfesti InfoCapital í verðbréfum og lánveitingum fyrir 10,3 milljarða en Reynir hefur m.a. fjárfest í Arion banka, Kviku banka og á þessu ári í Icelandair og Sýn. Eignarhlutur Reynis í markaðshlutabréfum námu 3,8 milljörðum í lok síðasta árs.

Sjá einnig: 14 milljarðar í kaupin á CreditInfo

Eignir InfoCapital voru bókfærðar á 13,4 milljarða króna í lok síðasta árs en félagið er nær skuldlaust. Til samanburðar voru eignir félagsins bókfærðar á 3,8 milljarða árið áður.

InfoCapital fór með 31,1% hlut í Compass UK Bidko, félags sem heldur utan um kaup LLCP á meirihluta hlutafjár í Creditinfo, í lok síðasta árs sem var bókfærður á 3,6 milljarða króna. Auk þess átti InfoCapital 47% hlut í breska félaginu StoneCo Ci, sem kom að kaupunum á SaltPay, sem hét áður Borgun, árið 2020. Hlutur Reynir, sem er stjórnarformaður SaltPay, í StoneCo var færður á 690 milljónir í lok síðasta árs.