Uppfært klukkan 16:15

Í máli Ólafar Nordal í sérstakri umræðu um málefni Íslandspósts ohf. á Alþingi, kom fram að hún teldi rétt að ríkisfyrirtækið yrði selt þegar fram liðu stundir. Ekki væri ástæða til að ríkið ætti hlut í félagi sem væri á einkamarkaði og sala á félaginu yrði tekin til skoðunar þegar einkaleyfi þess hefði verið fellt úr gildi.

Upphafleg frétt:

Innanríkisráðherra telur að tímabært sé að ríkið dragi sig út af póstmarkaði. Þetta kom fram í umræðum um málefni Íslandspósts á Alþingi í dag. „Þá skiptir máli að samkeppni fái þrifist og það gerist ekki að fyrirtæki í opinberri eigu sé að vasast inni á samkeppnismarkað. Það er bara mín afdráttarlausa skoðun að svo eigi ekki að vera," sagði Ólöf Nordal. Hún gerði þó þann fyrirvara á að hún teldi að ríkið hefði hlutverki að gegna við að veita ákveðna lágmarksþjónustu í póstdreifingu.

Í máli Ólafar  kom fram að innanríkisráðuneyti vinni nú að frumvarpi sem er ætlað að afnema einkarétt Íslandspósts. Eins og sakir standa hefur íslenska ríkið einkarétt á póstþjónustu vegna bréfa allt að 50 g að þyngd, svo framarlega sem burðargjaldið fyrir bréfið er minna en þrisvar sinnum lægsta burðargjald sem gildir fyrir venjuleg bréf innanlands.

Ekki uppi áform um sölu

Í samtali við Viðskiptablaðið þann 11. desember 2014 var Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, inntur eftir svörum við því hvort til stæði að selja Íslandspóst ohf. eftir að einkaréttur félagsins yrði afnuminn. Svaraði hann á þá lundu að hann kannaðist ekki við að áform væru uppi um það.