Jón Þór Ágústsson, eigandi söluturnsins King Kong, gagnrýnir áformuð frumvarpsdrög af hálfu fjármálaráðherra sem hefur felur m.a. í sér að leggja á sérstakt nikótíngjald. Hann segir að það sé ekkert nýtt að ríkið kunni sér ekki hóf þegar kemur að gjaldtöku.
Samkvæmt frumvarpsdrögunum stendur til að leggja á 20 króna gjald á hvert gramm af heildarþyngd nikótínvara. Það hefði í för með sér 300 króna gjaldtöku á staðlaða dós af nikótínpúðum. Svens áætlar að gjaldtakan muni leiða til 50-75% hækkun á útsöluverði.
Jón segir að ríkið hækki mest álögur á púðana en þeir sem þekki til viti að álagning á þeim í verslunum sé með því lægsta sem þekkist.
„Sem dæmi þá eru nikótínpúðar á Íslandi ódýrari en á Spáni. Þetta hefur komið sér vel fyrir viðskiptavininn en það situr ekki mikið eftir af sölu á hverri dós af nikótínpúðum í vasa söluaðila samanborið við aðra vöruflokka. Því finnst mér líklegt að þessi skattahækkun lendi því miður næstum alfarið á neytandanum.“
Aðrar nikótínverslanir eins og Svens hafa einnig gagnrýnt fyrirhugaða gjaldið og segja að verði frumvarpsdrögin að lögum muni löggjafinn gera tóbak aftur samkeppnishæft á nikótínmarkaðnum og veita rafrettum umtalsvert samkeppnislegt forskot.
„Hvað varðar þetta gjald, þá sé ég því miður engan annan valkost fyrir söluaðila á þessum markaði en að hækka vöruverð til þess eins að standa straum af þessum kostnaði. Við munum þó áfram keppast við að bjóða upp á bestu verðin,“ segir Jón að lokum.
King Kong undirbýr nú opnun á sinni sjöttu verslun en Jón segir að stefnt sé að opnun fyrir áramót.