Íslenska ríkið og Lindarhvoll voru í dag sýknuð af bótakröfu Frigusar II fyrir héraðsdómi vegna sölu hlut ríkisins á Klakka árið 2016.
Frigus II, sem er í eigu Sigurðar Valtýssonar, og Ágústs og Lýðs Guðmundssonar, kenndir við Bakkavör, stefndi Lindarhvoli og íslenska ríkinu í september árið 2020 og fór fram á 651 milljón króna í bætur. Félagið taldi m.a. að tilboð hafa verið tekið sem ekki uppfyllti skilyrði útboðsins og að tilboðinu hefði verið breytt eftir á.
Meðal þeirra sem báru vitni við aðalmeðferð málsins voru Sigurður Þórðarson settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols. Sigurður ritaði greinargerð um starfsemi Lindarhvols sem stjórnarandstaðan hefur að undanförnu kallað eftir að verði birt.
Fyrir dómi sagði Sigurður meðal annars að hann hafi látið gera verðmat á hlutnum í Klakka. „Niðurstaða verðmatsins varð sú að hluturinn væri 952 milljóna króna virði, en hefði verið seldur á 505 milljónir í útboðinu, sem var skilyrt þannig að hið endanlega söluverð var 423 milljónir króna.“
Forsætisnefnd Alþingis hugðist afhenda Viðskiptablaðinu greinargerð Sigurðar í apríl á síðasta ári en hætti við og hefur enn ekki tekið ákvörðun um birtingu greinargerðarinnar þó vilji allra nefndarmanna annarra en Birgis Ármannssonar forseta Alþingis standi til að birta greinargerðina.