Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur ákveðið að hefja sölumeðferð á hlutum í Íslandsbanka að því er fram kemur í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Selja á 25-35% hlut samhliða skráningu bankans á markað í vor. Bankasýslu ríkisins lagði söluna til við ráðherra 17. desember.

Fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hafa skrifað umsögn tillöguna og lögðu til að sölumeðferðin hæfist.

Einnig veitti Seðlabanki Íslands umsögn, 15. janúar þar sem fram kemur að talið sé að jafnræði bjóðenda verði tryggt, auk þess sem fyrirhuguð sala er talin hafa takmörkuð áhrif á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða bankans og laust fé í umferð.

Lagt er til að farið verði að tilmælum nefndanna um að 25-35% hlutur verði seldur, en að hámark verði sett á hlut hvers tilboðsgjafa, t.d. 2,5–3,0% af heildarhlutafé bankans, en að um leið verði að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði og lagður grunnur að dreifðu eignarhaldi og fjölbreytileika í eigendahópi Íslandsbanka.

Einnig er Bankasýslunni falið að skoða hvort það samræmist markmiðum ríkisins um hámörkun ábata af eignarhaldi og sölu á hlutum í Íslandsbanka að bankinn gerði arð til ríkisins umfram lágmarks eigið fé félagsins.

„Þá mun ráðuneytið, í samstarfi við Bankasýslu ríkisins, leggja fram tillögu að áætlun um reglubundna upplýsingamiðlun til þingnefndanna um framvindu og undirbúning útboðsins, ekki síst varðandi markaðsaðstæður. Lögð er áhersla á að slík upplýsingagjöf þurfi hverju sinni að taka mið af undirliggjandi hagsmunum ríkisins og því regluumhverfi sem gildir um skráningu hlutabréfa á skipulegan verðbréfamarkað, sölu hlutabréfa almennt og um upplýsingar félags með skráð skuldabréf á markaði," segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.