Hæstiréttur Íslands sýknaði í dag íslenska ríkið af kröfu Reykjavíkurborgar vegna framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í tengslum við rekstur grunnskóla og kennslu barna með íslensku sem annað mál.
Borgin hafði betur gegn ríkinu í héraði fyrir tæpu ári og þurfti ríkið að greiða borginni um 3,3 milljarða króna ásamt vöxtum.
Deilurnar eiga sér langan aðdraganda og snúa að því hvort fullnægjandi lagastoð hafi verið fyrir því að útiloka Reykjavíkurborg frá úthlutun almenns jöfnunarframlags úr jöfnunarsjóði vegna reksturs grunnskóla og framlags vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál.
Málinu var áfrýjað beint til Hæstaréttar án viðkomu í Landsrétti.
Hæstiréttur dæmdi ríkinu í vil en borgin þarf að greiða ríkinu fjórar milljónir króna vegna málskostnaðar.
Í dóminum segir að Hæstiréttur hafi leitað aftur til ársins 1996 og skoðað forsendur fyrir flutningi grunnskóla frá ríki til sveitafélaga.
Hæstiréttur segir í dómi sínum að þar sem ótvírætt var að Reykjavík gæti tekið við rekstri grunnskóla fyrir sitt leyti og ætti ekki að njóta framlaga úr jöfnunarsjóði á þeim grunni.
„Ekki var því talið að löggjafinn hefði framselt vald til ráðherra til að meta hvort eða á hvaða grunni Reykjavíkurborg ætti rétt á framlögum úr sjóðnum. Ekki var fallist á með Reykjavíkurborg að fyrirmæli reglugerðar um tilgreind framlög úr jöfnunarsjóði hefði skort stoð í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga í andstöðu við 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfum Reykjavíkurborgar,“ segir í tilkynningu á vef Hæstaréttar.