Hæstiréttur Ís­lands sýknaði í dag ís­lenska ríkið af kröfu Reykja­víkur­borgar vegna fram­laga úr Jöfnunar­sjóði sveitarfélaga í tengslum við rekstur grunnskóla og kennslu barna með ís­lensku sem annað mál.

Borgin hafði betur gegn ríkinu í héraði fyrir tæpu ári og þurfti ríkið að greiða borginni um 3,3 milljarða króna ásamt vöxtum.

Deilurnar eiga sér langan að­draganda og snúa að því hvort fullnægjandi laga­stoð hafi verið fyrir því að úti­loka Reykja­víkur­borg frá út­hlutun al­menns jöfnunar­fram­lags úr jöfnunar­sjóði vegna reksturs grunnskóla og fram­lags vegna nem­enda með ís­lensku sem annað tungumál.

Málinu var áfrýjað beint til Hæstaréttar án viðkomu í Lands­rétti.

Hæstiréttur dæmdi ríkinu í vil en borgin þarf að greiða ríkinu fjórar milljónir króna vegna máls­kostnaðar.

Í dóminum segir að Hæstiréttur hafi leitað aftur til ársins 1996 og skoðað for­sendur fyrir flutningi grunnskóla frá ríki til sveitafélaga.

Hæstiréttur segir í dómi sínum að þar sem ót­vírætt var að Reykja­vík gæti tekið við rekstri grunnskóla fyrir sitt leyti og ætti ekki að njóta fram­laga úr jöfnunar­sjóði á þeim grunni.

„Ekki var því talið að löggjafinn hefði fram­selt vald til ráðherra til að meta hvort eða á hvaða grunni Reykja­víkur­borg ætti rétt á fram­lögum úr sjóðnum. Ekki var fallist á með Reykja­víkur­borg að fyrir­mæli reglu­gerðar um til­greind fram­lög úr jöfnunar­sjóði hefði skort stoð í lögum nr. 4/1995 um tekju­stofna sveitarfélaga í and­stöðu við 2. mgr. 78. gr. stjórnar­skrárinnar. Var ís­lenska ríkið því sýknað af kröfum Reykja­víkur­borgar,“ segir í til­kynningu á vef Hæstaréttar.