Rekstur viðskiptabanka landsins virðist vera að færast í eðlilegt horf aftur eftir mjög hagfelldar aðstæður í faraldrinum. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs var hagnaðarsamdráttur milli ára hjá tveimur af þremur stóru viðskiptabönkunum.

Hagnaður Íslandsbanka á tímabilinu nam 10,7 milljörðum króna, samanborið við 12,4 milljarða á sama tímabili 2023, og hagnaður Arion banka nam 9,9 milljörðum króna, samanborið við 13,4 milljarða í fyrra.

Samanlagður hagnaður viðskiptabankanna þriggja væri lægri ef ekki væri fyrir Landsbankann, þar sem hagnaður nam 16,1 milljarði króna á fyrstu sex mánuðum ársins og jókst um 1,6 milljarða milli ára.

Sömu sögu er að segja af rekstrartekjum en einungis var aukning milli ára hjá Landsbankanum, þar sem tekjur námu 37,4 milljörðum króna, samanborið við 34,5 milljarða á sama tíma árið 2023.

Rekstrartekjur Íslandsbanka drógust saman um 300 milljónir og námu 32,1 milljarði króna en samdrátturinn skýrist helst af minni nettó korta- og greiðslumiðlunartekjum.

Hjá Arion banka námu þær 31,1 milljarði króna og drógust saman um 1,8 milljarða en vaxta- og þóknanatekjur jukust þó á milli fyrsta og annars ársfjórðungs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.