Fyrr í þessum mánuði skrifuðu kínversk tollayfirvöld og ríkisskattstjóri undir svokallaða AEO-vottun á tollaráðstefnu í Shenzhen í Kína. Samhliða samkomulaginu sem Kína gerði við Ísland var einnig undirritaður svipaður samningur við afríska ríkið Búrúndí.
Borgaryfirvöld í Shenzhen greina frá þessu en Snorri Olsen ríkisskattstjóri var sjálfur viðstaddur undirritunina í Kína sem fór fram 9. maí sl.
AEO stendur fyrir „Authorised Economic Operator“ og hefur verið nefnt „viðurkenndir rekstraraðilar“ á íslensku. AEO er viðurkenning sem veitt er fyrirtækjum sem gegna hlutverki í alþjóðlegu vörukeðjunni.
Að sögn skattsins er kerfinu er fyrst og fremst ætlað að greiða fyrir milliríkjaviðskiptum og auka öryggi alþjóðlegu vörukeðjunnar. Íslensk fyrirtæki sem gegna hlutverki í þessari vörukeðju geta sótt um að hljóta slíka vottun.
Kína er stærsta viðskiptaland Íslands í Asíu og segja kínversk tollayfirvöld að nýi samningurinn muni auka tvíhliða viðskipti milli landanna og muni einnig auka viðskiptaöryggi.
„Ég er handviss um að þetta muni gagnast íslenskum fyrirtækjum og vonandi mun það einnig gagnast kínverskum fyrirtækjum,“ sagði Snorri Olsen í samtali við kínverska fjölmiðla.