Rishi Sunak, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, mun ganga til liðs við Goldman Sachs sem aðalráðgjafi en þetta verður fyrsta staðan sem hann gegnir eftir að hafa sagt af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins eftir sigur Verkamannaflokksins í síðustu þingkosningum.

Á vef FT segir að ráðningin marki endurkomu Sunaks til Wall Street en hann starfaði hjá Goldman Sachs frá 2001 til 2004, fyrst sem starfsnemi og síðar sem greinandi.

David Solomon, forstjóri Goldman Sachs, segist spenntur að bjóða Rishi velkominn aftur til starfa þar sem hann mun vinna með stjórnendum bankans við að ráðleggja viðskiptavinum um málefni tengd efnahagsmálum og alþjóðastjórnmálum.

„Hann mun einnig eyða tíma með starfsfólki okkar um allan heim og leggja sitt af mörkum til menningar bankans varðandi nám og þróun,“ segir David.

Fyrr á þessu ári var tilkynnt að Sunak hefði tekið við störfum við bæði Oxford-háskóla og Stanford-háskóla. Hann hafði þó ítrekað sagt að hann myndi halda áfram að gegna opinberum þingstöðum það sem eftir væri af tímabilinu.