Allar helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna voru nokkuð stöðugar í viðskiptum gærdagsins en Dow Jones lækkaði um 0,4% á meðan Nasdaq hækkaði um 0,2%. Engin marktæk breyting var á S&P 500 vísitölunni milli viðskiptadaga.
Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til tíu ára hefur verið stöðug síðustu daga og lokaði í 3,908% í gær sem bendir til þess að fjárfestar séu ekki að koma peningum sínum í skjól af ótta við annað gengishrun.
Fjárfestar vestanhafs munu fylgjast náið með verðbólgutölum á miðvikudaginn en í dag birtist árshlutauppgjör Home Depot og síðan fylgir Walmart eftir á fimmtudaginn.
Uppgjör verslunarrisanna tveggja mun gefa innsýn inn í stöðu neytenda í Bandaríkjunum.
Samkvæmt The Wall Street Journal þá byrjaði viðskiptavikan frekar rólega í gær en það sé hins vegar ljóst að taugar fjárfesta séu þandar og flestir séu að fylgjast mun betur með öllum hagtölum en oft áður.