Árið 2023 var halli af rekstri A-hluta, sem er að mestu rekinn með skattfé, fjögurra af átta stærstu sveitar félögum landsins en í fyrra voru þau öll rekin með afgangi. Hjá Reykjavíkurborg, Kópavogsbæ, Akureyrarbæ og Árborg var um að ræða bestu rekstrarniðurstöðu í meira en áratug hið minnsta.

Mesti viðsnúningurinn var hjá Reykjavíkurborg, sem fór úr 5 milljarða halla A-hluta árið 2023 á verðlagi ársins 2024 í 4,7 milljarða afgang árið 2024. Kópavogsbær fór þá úr 746 milljóna króna halla yfir í 4,2 milljarða króna af gang.

Rétt er þó að taka fram að tæplega 6 milljarða króna arðgreiðsla frá Orkuveitunni, sem fellur undir fjármunatekjur, litar afkomu Reykjavíkurborgar en borgarsjóður yrði án hennar rekinn með halla. Þá litar 3,2 milljarða króna lóðarsala afkomu Kópavogsbæjar en lóðarsalan er færð til tekna.

Án fjármagnsliða jókst hagnaður milli ára hjá fimm sveitarfélögum. Hagnaður Reykjavíkurborgar nam 8,6 milljörðum, 6,5 milljörðum hjá Kópavogsbæ, 3,6 milljörðum hjá Árborg, 1,7 milljörðum hjá Akureyrarbæ, og 2 milljörðum hjá Mosfellsbæ. Hjá Garðabæ dróst hagnaður fyrir fjármagnsliði saman og nam 2,7 milljörðum, en nam 2 milljörðum hjá Reykjanesbæ og 2,1 milljarði hjá Hafnarfjarðarbæ.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.