Úr­vals­vísi­talan OMXI15 lækkaði um 0,46% í við­skiptum dagsins en heildar­velta á hluta­bréfa­markaði var ekki nema 2,9 milljarðar.

Líkt og kunnugt er lækkaði peninga­stefnu­nefnd Seðla­banka Ís­landsvexti í morgun um 50punkta sem var í samræmi við væntingar markaðsaðila.

Viðsnúningur varð á gengi Festi sem hefur hækkað um 25% frá því að félagið birti árs­hluta­upp­gjör í lok október.

Gengi Festi lækkaði um rúm 2% í um 46 milljón króna við­skiptum í dag.

Gengi félagsins fór úr 230 krónum í 288 krónur í mánuðinum en lækkaði að nýju í dag og var dagsloka­gengið 282 krónur. Gengi Festi hefur þó hækkað um tæp 40% á árinu.

Hluta­bréfa­verð Icelandair lækkaði einnig í við­skiptum dagsins er gengi flug­félagsins fór niður um 1,6 % í 221 milljón króna veltu.

Hluta­bréfa­verð Iceland Sea­food International leiddi hækkanir á aðal­markaði er gengi félagsins hækkaði um 3% í 29 milljón króna veltu.

Félagið birti árs­hluta­upp­gjör eftir lokun markaða.

Mesta veltan var með bréf Kviku Banka er gengi félagsins fór niður um 1% í 499 milljón króna veltu. Dagsloka­gengi Kviku banka var 18,7 krónur