Rósa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Eimskips, keypti hlutabréf í flutningsfélaginu fyrir 2,5 milljónir króna um tvöleytið í dag.
Rósa keypti 6.345 hluti á genginu 394 krónur á hlut samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.
Hlutabréfaverð Eimskips hækkaði um 5,1% í dag og stóð í 393 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar, samanborið við 374 krónur við lokun markaða í gær.
Eimskip birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Afkoma þriðja félagsins á þriðja ársfjórðungi var sú sterkasta á árinu sem félagið rakti til góðs tekjuvaxtar.
Rósa Guðmundsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri fjármálasviðs Eimskips í lok júlí síðastliðnum og hóf störf í byrjun september. Hún kom til Eimskips frá fasteignafélaginu Heimum þar sem hún starfaði sem framkvæmdastjóri fjármála frá árinu 2021.