Rússneska rúblan hefur veikst um 2,2% gagnvart Bandaríkjadal í morgun en frá því að gagnárás Úkraínumanna hófst gegn Rússlandi hefur rúblan veikst um 8,6% gagnvart dal. Einn dalur kaupir nú um 93 rúblur en dalurinn keypti um 84 rúblur í byrjun mánaðar.
Úkraínumenn greindu frá því í morgun að hersveitir þeirra hefðu náð þúsund ferkílómetrum af rússnesku yfirráðasvæði.
Um er að ræða stærstu gagnárás úkraínska hersins frá því að innrás Rússa hófst fyrir tveimur og hálfu ári síðan.
Sífellt fleiri Rússar hafa þurft að yfirgefa heimili sín í öryggisskyni meðan Úkraínuher heldur áfram sókn sinni í Kúrsk-héraði.
Samkvæmt BBC hefur 121 þúsund manns verið gert að yfirgefa heimili sín.
Vladimir Putin Rússlandsforseti hefur lýst árásinni sem meiri háttar ögrun og hefur skipað hersveitum sínum að sparka „óvininum út af yfirráðasvæðum“ Rússa.