Ættfræðifyrirtækið 23andMe hefur tilkynnt að það muni segja upp 200 starfsmönnum, eða rúmlega 40% af vinnuafli sínu. Fyrirtækið var mjög vinsælt fyrir nokkrum árum síðan meðal einstaklinga sem vildu rekja erfðaslóð sína en nú reynir það að lifa af.
Gengi félagsins hefur lækkað um meira en 70% á þessu ári en fyrir ári síðan tilkynnti 23andMe að tölvuþrjótar hefðu brotist inn í tölvukerfi þess og stolið upplýsingum frá milljónum notenda.
Fyrirtækið varð vinsælt meðal fólks sem vildi bæði rekja forfeðraslóðir sínar um allan heim en líka meðal þeirra sem vildu fá aukna innsýn inn í heilsu sína og mögulegt sjúkdómamynstur. Meðal frægra viðskiptavina þess voru Snoop Dogg og Warren Buffet.
Fyrirtækið hefur meðal annars verið tekið fyrir í vinsælum sjónvarpsþáttum eins og South Park.
Í desember á síðasta ári varð hins vegar 23andMe fyrir tölvuárás og náðu tölvuþrjótar að nálgast ættartré 6,9 milljóna notenda. Gögnin innihéldu þó ekki upplýsingar um DNA en tölvuþrjótarnir notuðu þó aðgang sinn til að komast yfir gögn ættingja viðskiptavina.
Eftirlitsstofnanir í Bretlandi og Kanada tilkynntu í júní á þessu ári að verið væri að rannsaka árásina og bentu Bretar á að 23andMe væri vörsluaðili mjög mikilvægra og viðkvæmra persónuupplýsinga, þar á meðal erfðafræðilegra upplýsinga, sem myndu ekki breytast með tímanum.