Gengi rafmyntarinnar Bitcoin er í sögulegum hæðum en þegar þetta er skrifað nemur virði eins Bitcoin um 90 þúsund Bandaríkjadölum, eða sem nemur um 12,7 milljónum króna. Í byrjun nóvember stóð gengi rafmyntarinnar í tæplega 70 þúsund dölum og hefur gegnið því hækkað um tæplega þriðjung síðan.

Rafmyntafjárfestar gera sér vonir um að 100 þúsund dala múrinn verði rofinn áður en árið rennur sitt skeið. Til marks um það kemur fram í frétt Wall Street Journal að verðmæti valréttarsamninga sem veðja á að gengið hafi náð 100 þúsund dölum þann 27. desember nk. nemi um 850 milljónum dala, eða sem nemur rúmlega 116 milljörðum króna.

Eins og sjá má á meðfylgjandi grafi hefur er gengi Bitcoin verið mjög sveiflukennt undanfarinn áratug. Það er því langt því frá öruggt að upptakturinn haldi áfram.

Hvað skýrir mikla hækkun?

En hvað veldur þessum miklu hækkunum? Sigur Donald Trump í nýafstöðnum forsetakosningum vestanhafs, ásamt því að Repúblikanar tryggðu sér meirihluta í báðum þingdeildum Bandaríkjaþings, er talin helsta ástæðan. Dugir að skoða gengisþróun rafmyntarinnar frá kosningadegi til að renna stoðum undir þá kenningu. Á kosningadaginn 5. nóvember stóð gengi Bitcoin í um 67 þúsund dölum. Eftir að sigur Trump var í höfn fór gengið á flug og náði hæsta punkti í 93.700 dölum.

Þá hefur þingmönnum sem eru jákvæðir gagnvart rafmyntaviðskiptum fjölgað. Í því samhengi má nefna að Sherrod Brown, formaður bankanefndar öldungadeildarinnar, tapaði þingsæti sínu til Bernie Moreno. Sá fyrrnefndi þykir einn helsti andstæðingur rafmynta á meðan sá síðarnefndi er hliðhollur slíkum viðskiptum. Rafmyntaiðnaðurinn er sagður hafa eytt 170 milljónum dala í að styrkja framboð Moreno.

Trump hefur ekki farið í grafgötur með stuðning sinn við rafmyntaiðnaðinn og lofað að losa um höft í kringum raf­myntir sam­hliða því að hann vill að hluti af gjald­eyris­forða ríkisins verði í Bitcoin. Þá eru nokkrir sem hann hyggst tilnefna í veigamikil embætti einnig miklir stuðningsmenn rafmynta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.