Samtök atvinnulífsins (SA) og Starfsgreinasamband Íslands (SGS) hafa undirritað skammtímakjarasamning sem gildir til 31. janúar 2024. Samningurinn felur í sér 33 þúsund króna almenna launahækkun og 35 þúsund króna hækkun á grunntaxta sem koma strax til framkvæmda.

Kjarasamningurinn er framlenging á Lífskjarasamningnum sem gilti frá 2019-2022.

Hagvaxtarauki vegna ársins 2022 sem átti að koma til framkvæmda 1. apríl 2023 er flýtt og verður að fullu efndur með hækkun 1. nóvember. Jafnframt var gert samkomulag um að með þessari hækkun og flýtingu komi ekki til frekara endurmats á hagvaxtarauka samkvæmt kjarasamningnum frá 2019.

„Markmið samningsins er að styðja við kaupmátt launafólks og brúa bil yfir í nýjan langtímasamning í anda Lífskjarasamningsins. Þar var áhersla lögð á að tryggja efnahagslega velsæld og aukna verðmætasköpun, bæta lífskjör og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta,“ segir í tilkynningu á vef SA.

Hluti af samkomulaginu er tímasett viðræðuáætlun sem er ætlað að láta samning taka við af samningi og tryggja með því samfellu milli Lífskjarasamningsins frá 2019 og nýs langtímasamnings. Viðræðum um önnur atriði en launalið er því frestað.

„Aðilar hafa komið sér saman um þau meginatriði sem horfa þarf til við þá vinnu og sammælst um að þegar verði hafist handa við undirbúning þeirra viðræðna. Markmiðið er að tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu launafólks þegar óvissutímabili lýkur og að samningur taki við af samningi.“

Viðræðuáætlun SA og SGS