Sádí-Arabía og Tesla eru nú í viðræðum þess efnis að opna verksmiðju í landinu en konungsríkið reynir nú að tryggja nauðsynlega málma fyrir rafbíla meðan það skoðar aðra möguleika en olíu.

Að sögn þeirra sem þekkja til málsins eru viðræðurnar á frumstigi. Það eru einnig líkur á því að ekkert verði úr viðræðum en Elon Musk, forstjóri Tesla, hefur átt frekar umdeilt samband við bæði Sádí-Arabíu og núverandi rafbílabirgja konungsríkisins, Lucid Group LCID.

Sádar hafa beðið Tesla um leyfi til að kaupa ákveðið magn af málmum og steinefnum sem fyrirtækið þarf fyrir rafbíla sína. Málmarnir koma meðal annars frá Lýðveldinu Kongó sem sér heiminum fyrir rúmlega 70% af öllu kóbalti.

Ef Sádar ná að semja við Tesla gæti konungsríkið hjálpað fyrirtækinu að ná fram markmiði sínu að selja 20 milljónir bíla á ári fyrir 2030, samanborið við 1,3 milljónir árið 2022. Það ár var til að mynda Toyota söluhæsta bílafyrirtæki heims og seldi í kringum 10,5 milljónir bíla.

Tesla framleiðir bílana sína í Bandaríkjunum, Kína og Þýskalandi og segist einnig ætla að bæta við framleiðslu í Mexíkó. Hvorki talsmenn Tesla né Sádí-Arabíu hafa hins vegar svarað fyrirspurnum vegna málsins.