Svissneski bankinn Credit Suisse hyggst sækja 4 milljarða franka, eða sem nemur 575 milljörðum króna, með hlutafjáraukningu, þar af um 1,5 milljarða franka, frá Saudi National Bank, stærsta viðskiptabanka Sádi-Arabíu, sem verður næst stærsti hluthafi samstæðunnar með 9,9% hlut. Financial Times greinir frá.
Credit Suisse tapaði 4 milljörðum franka á þriðja ársfjórðungi og var afkoma bankans á fyrstu níu mánuðum ársins því neikvæð um 1,2 milljarða franka. Hlutabréf bankans, sem birti uppgjör í gær, hafa lækkað um meira en 11% í dag.
Auk framangreindrar fjármögnunar hefur Credit Suisse samþykkt að selja hluta af einingu sinni sem selur fjármálaafurðir til fjármálafyrirtækjanna Pimco og Apollo. Ásamt því hefur bankinn kynnt áform um að aðskilja ráðgjafarstarfsemina sem og fjármagnsmarkaðaeiningu sína á nærstu þremur árum og endurvekja vörumerkið CS First Boston.
Bankinn sagði í dag að hann myndi skera kostnað niður um 2,5 milljarða franka, eða sem nemur 15% af kostnaðargrunni hans, fram til ársins 2025. Áformin fela í sér að bankinn fækki starfsgildum um 43-52 þúsund á næstu þremur árum, þar af um 2.700 fyrir lok ársins.